Dagskrártillaga sjálfstæðismanna um að frumvarp um stjórnskipunarlög verði tekin af dagskrá og þess í stað boðað til nýs fundar þar sem fyrsta málið verði heimild til samninga um álver í Helguvík, var felld á Alþingi í dag með 31 atkvæði þingmanna Samfylkingar, VG, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins gegn 20 atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokks lagði í hádeginu fram sérstaka dagskrártillögu um að þingfundi sem nú stendur yfir verði slitið og boðað til nýs fundar með nýrri dagskrá. Gerir tillaga sjálfstæðismanna ekki ráð fyrir því að frumvarp til stjórnskipunarlaga verði á dagskrá fundarins.
Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, gerði grein fyrir atkvæði sínu og sagði að svo virtist sem minnihlutaríkisstjórnin hefði náð því fram að Alþingi fjallaði um stjórnskipunarlög í staðinn til dæmis að fjalla um heimild til samninga um álver í Helguvík. Í atkvæðagreiðslunni væri væntanlega að koma fram gríðarlegur ágreiningur, sem væri innan ríkisstjórnarinnar um hin stærstu mál.
Kristján L. Möller, samgönguráðherra, sagði að í raun væri ágætt að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hagaði sér um þessar mundir. Sagði Kristján, að þjóðin myndi eftir atkvæðagreiðsluna fá áframhaldandi málþóf í boði Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forseta Alþingis. „Nú munu koma 7, 8, 9, jafnvel 15 þingmenn Sjálfstæðisflokksins og tala um fundarstjórn forseta. Hvað er þetta annað en málþóf?" spurði Kristján.
Guðbjartur Hannesson, forseti þingsins, frestaði hins vegar þingfundi þegar að lokinni atkvæðagreiðslunni.