Engin vísindarök að baki makrílkvóta

„Ljóst er að ákvörðun sjávarútvegsráðherra um 112 þúsund tonna makrílafla árið 2009 er ekki byggð á þeim vísindalega grunni sem skilgreindur er, af ráðuneytinu, sem hornsteinn ábyrgrar fiskveiðistjórnar. Þessi ákvörðun er því ekki í samræmi við yfirlýsingu sjávarútvegsráðuneytisins og fleiri aðila um ábyrgar fiskveiðar frá árinu 2007,“ segir Ólafur Karvel Pálsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni.

Ólafur segir að makríll hafi til skamms tíma verið framandlegur fiskur á Íslandsmiðum. Hans hafi orðið vart í torfum í einstaka árum víða umhverfis land á fyrri hluta síðustu aldar, en í minna mæli eftir það. Á þessu hafi orðið breyting árið 2006 þegar Íslendingar hófu veiðar á makríl og nam aflinn um 4 þúsund tonnum og jókst í 36 þúsund tonn 2007. Á síðasta ári hafi orðið gríðarleg aukning í aflabrögðum og aflinn varð um 112 þúsund tonn. Vart fari á milli mála að makríll hafi gengið á Íslandsmið á síðasta ári í mun meiri mæli en áður eru dæmi um.

Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að makrílafli íslenskra skipa megi vera 112 þúsund tonn 2009. Ef gert er ráð fyrir að heildarafli 2009 verði í efri mörkum, þ.e. 578 þúsund tonn, og þar af verði afli Íslendinga 112 þúsund tonn, þýðir það að aðrar þjóðir geta ekki veitt meira en 466 þúsund tonn og verða því að skera sinn afla niður um c.a. 30 þúsund tonn.

„Af þessu má ráða að veiðar Íslendinga hafa sett  fiskveiðistefnu Evrópuþjóða á makríl í uppnám,“ segir Ólafur Karvel Pálsson og bætir við að sú spurning vakni hvað felist í nýlegri yfirlýsingu sjávarútvegsráðuneytisins og fleiri aðila í sjávarútvegi um ábyrgar fiskveiðar.

Ólafur Karvel segir að ekki hafi komið fram að Hafró hafi veitt vísindalega ráðgjöf um makrílveiðar enda hafi stofnunin ekki gögn um veiðar annarra þjóða á makríl og geti því ekki veitt slíka ráðgjöf án samstarfs við erlendar rannsóknastofnanir og Alþjóðahafrannsóknaráðið. Þá hafi ekki heldur komið fram að ráðgjafanefnd Alþjóðahafrannsóknarráðsins hafi veitt ráðgjöf í þessu sambandi.

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um makrílkvóta sé ekki byggð á vísindalegum grunni eða í samræmi við yfirlýsingar sjávarútvegsráðuneytisins og fleiri aðila um ábyrgar fiskveiðar.

Grein Ólafs Karvels Pálssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert