Líðan mannsins sem ráðist var á við strætóskýli í Lækjargötu aðfararnótt laugardags, er óbreytt frá því í gær að sögn læknis á gjörgæsludeild Landspítalans. Maðurinn fékk alvarlega höfuðáverka eftir að ráðist hafði verið á hann á fimmta tímanum um nóttina. Lögreglan vinnur nú að rannsókn málsins en einn maður hefur játað aðild sína að málinu.
Til átaka kom við skýlið, sem er til móts við stjórnarráðið, og lá maðurinn meðvitundarlaus eftir. Hann var í skyndi fluttur á slysadeild og þaðan á gjörgæsludeild. Í fyrstu þurfti hann að notast við öndunarvél en hann komst síðar til meðvitundar. Maðurinn er enn í alvarlegu ástandi og er fylgst grannt með líðan hans.