Gerð varnargarða skapar 200 ársverk

Frá Ólafsfirði
Frá Ólafsfirði mbl.is

Í kjölfar tillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur umhverfisráðherra sem samþykkt var í ríkisstjórn um að framkvæmdum við ofanflóðavarnir verði hraðað, hefur ofanflóðanefnd óskað eftir heimild fjármálaráðuneytisins til að bjóða út framkvæmdir við varnargarða í Neskaupstað og í Ólafsfirði.

Umhverfisráðherra lagði til við ríkisstjórn að tæpum 1.100 milljónum króna yrði varið í ofanflóðavarnir til viðbótar við þær tæpar 700 milljónir sem þegar höfðu verið ákveðnar samkvæmt fjárlögum.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir standi yfir næstu fjögur árin í Neskaupstað en ljúki að mestu á þessu ári í Ólafsfirði. Ætla má að framkvæmdirnar í Neskaupstað og Ólafsfirði muni skapa hátt í 200 ársverk, að því er segir á vef stjórnarráðsins.

Nú er unnið að útboði vegna upptakastoðvirkja í Neskaupstað. Tilboði í hönnun og smíði þeirra hefur þegar verið tekið en uppsetning verður boðin út á næstunni.

Íbúafundir voru haldnir í Ólafsfirði og í Neskaupstað í liðinni viku þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir voru kynntar af Hafsteini Pálssyni, verkefnastjóra ofanflóðanefndar og hönnuðum framkvæmdanna. Þar gafst íbúum sveitarfélaganna einnig kostur á að fá svör við spurningum um fyrirhugaðar framkvæmdir. 

Ofanflóðanefnd hefur með samþykkt ríkisstjórnarinnar jafnframt fengið heimild til að vinna að auknum framkvæmdum í Bolungarvík á árinu og til að hefja framkvæmdir við næsta áfanga snjóflóðavarna á Ísafirði.  Áætlað er að 30 ný ársverk skapist í tengslum við þessar auknu framkvæmdir.

Þess má geta að nú er unnið að framkvæmdum við ofanflóðavarnir í Ólafsvík og Bíldudal auk fyrrgreindra framkvæmda í Bolungarvík. Miðað er við að ljúka framkvæmdum í Ólafsvík og Bíldudal að mestu leyti á árinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert