Fréttaskýring: Gersemar og drasl í söfnum bankanna

Sum frægustu verk bankanna eru naglföst á veggjunum og fara …
Sum frægustu verk bankanna eru naglföst á veggjunum og fara hvergi. Þar á meðal þessar teikningar eftir Kjarval í Landsbankanum.

Þegar viðskiptabankarnir þrír fóru í þrot í fyrrahaust og ríkið yfirtók starfsemi þeirra beindu menn sjónum sínum að verðmætum listaverkasöfnum bankanna. Sú spurning vaknaði eðlilega hvort ríkið og þar með þjóðin hefði eignast þessi listaverk. Bent var á það, að þegar ríkið seldi einkaaðilum bankana á sínum tíma, hafi listaverkin fylgt með í kaupunum. Ýmsir töldu að það hefðu verið mistök og ríkið hefði átt að halda listaverkunum eftir í sinni eigu.

Á Alþingi voru lögð fram tvö mál þessu tengd, annars vegar frumvarp og hins vegar þingsályktunartillaga. Var það vilji flutningsmanna, að listaverkin kæmust í eigu þjóðarinnar, enda var talið að a.m.k. sum listaverkanna væru gersemar, sem eðlilegt væri að þjóðin ætti.

Þar sem verkin voru í eigu bankanna, kom málið til kasta viðskiptanefndar Alþingis. Að sögn Álfheiðar Ingadóttur, formanns nefndarinnar, var leitað umsagna frá mörgum aðilum, þar á meðal bönkunum, Listasafni Íslands, Sambandi íslenskra myndlistarmanna og listfræðingum. Einróma niðurstaða nefndarinnar var sú að leggja til við ríkisstjórnina að fram fari mat listfræðinga á listasögulegu og þjóðmenningarlegu gildi listaverkanna og því mati verði lokið á þessu ári. Markmiðið er að greina frá þau verk sem teljast vera þjóðargersemar og Listasafni Íslands verði gert kleift að eignast verkin og varðveita þau.

Mörg verkanna lítils virði

Hann varar við því að setja verkin á markað því kaupendamarkaður í dag sé ekki stór. Það yrði stórhættulegt að setja verkin á markaðinn í einu lagi, þá yrði algert verðhrun. Hugmyndir í þessa átt, sem m.a. komu fram hjá einum alþingismanni í vetur, væru tóm steypa.

Ýmis lögfræðileg álitamál hafa komið upp varðandi listaverkin, og hafa þau verið til skoðunar hjá menntamálaráðuneytinu allt frá því bankarnir hrundu í haust. Eitt atriði sem er til skoðunar er hvort ríkið þurfi að greiða fyrir verkin, vilji það eignast þau.

Upplýst hefur verið að við skiptingu bankanna var allt lausafé, þar á meðal listaverkin, flutt í nýju bankana. Það á alveg eftir að reyna á það, hvort kröfuhafar í bú gömlu bankanna, sem nú eru í greiðslustöðvun, muni sætta sig við að verðmæti séu flutt úr búum þeirra með þessum hætti. Á þetta mun væntanlega ekki reyna fyrr en gömlu bankarnir verða annaðhvort seldir eða settir í þrot að loknum greiðslustöðvunartímanum. Sá möguleiki er fyrir hendi að kröfuhafarnir óski eftir því að verkin verði seld svo þeir fái meira upp í kröfur sínar. Kann þetta álitamál að enda fyrir dómstólum.

Mikill fjöldi

Listaverkasöfn bankanna eru mikil að vöxtum og lætur nærri að þau geymi um 4.000 verk.

Listaverkasafn Landsbankans er stærst. Í því eru um 1.700 verk. Í safninu eru mörg mjög merkileg verk eftir gömlu meistarana. Til dæmis eru í safninu um 60 verk eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval. Fyrrverandi eigendur bankans bættu um 400 verkum við safnið.

Í safni Kaupþings eru um 1.200 verk sem flest voru keypt í tíð gamla Búnaðarbankans. Þar er að finna margar perlur gömlu meistaranna. Einnig á safnið dýrmætar myndir eftir helstu málara seinni hluta síðustu aldar, svo sem Karl Kvaran, Svavar Guðnason og Þorvald Skúlason. Á síðustu árum hefur bankinn keypt mörg verk eftir þekkta nútímamálara. Í safni Glitnis eru 1.087 verk, að stofni til úr gamla Útvegsbankanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert