Hlé á þingfundi vegna framboðsfundar?

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Þingmenn Sjálfstæðisflokks fóru fram á það, að hlé yrði gert á þingfundi í dag svo þingmenn gætu fylgst með framboðsfundi, sem haldinn verður á Ísafirði klukkan 19:30 en fundinum verður útvarpað og sjónvarpað. Þingmaður Samfylkingarinnar sagði að þetta væri kjánaskapur.

Sturla Böðvarsson sagði, að hefð væri komin á varðandi þetta en gert hefði verið hlé á þingfundi sl. föstudagskvöld þegar formenn flokkanna voru í sjónvarpsþætti. Sagði Sturla að það væri fullkomlega óeðlilegt gagnvart Norðvesturkjördæmi, að þingmenn væru bundnir á þingfundi meðan á framboðsfundi á Ísafirði stæði.

Þuríðir Backman, sem sat í forsetastóli, sagði að þetta yrði skoðað þegar liði á daginn. Þingmenn sögðu, að óþægilegt væri að óvissa ríkti um þetta en Þuríður sagðist vilja fá að meta fram eftir degi hvernig umræður gengju. Hún benti einnig á að gert væri ráð fyrir hléi á þingfundi milli klukkan 19 og 20 vegna nefndarfunda.

Mörður  Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist aldrei hafa heyrt annan eins málflutning, að stöðva eigi þingið meðan framboðsfundur stæði yfir. Ég spái því að það næsta sem gerist er að þegar Reykjavíkurmótið í knattspyrnu stendur yfir vilji Sigurður Kári Kristjánsson fá frí til að horfa á Fram-leikina og útvegi mér frí til að fara á KR-leikina. Og þegar Björn Bjarnason fer næst í saumaklúbb þá krefjist hann þess af forseta að þingfundur verði stöðvaður. Hættum nú þessum kjánaskap, góðir þingmenn," sagði Mörður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka