Íslenskir karlar verða karla elstir

Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mjög á undanförnum árum. Frá árinu 2000 hafa þeir bætt við sig tveimur árum í meðalævilengd og verða nú karla elstir í heiminum, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar um dánartíðni og ævilengd 2008.

Árið 2008 dóu 1.986 einstaklingar með lögheimili á Íslandi, 981 karl og 1.005 konur. Dánartíðni var því 6,2 látnir á hverja 1.000 íbúa.

Eins og annars staðar í heiminum er meðalævilengd íslenskra karla styttri en kvenna. Íslenskir karlar geta nú vænst þess að verða 79,6 ára gamlir en konur 83,0 ára. Á undanförnum áratugum hefur dregið nokkuð saman með kynjunum. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var um sex ára munur á ævilengd karla og kvenna en er nú einungis 3,4 ár. Svipaða þróun má greina annars staðar í Evrópu. Af Norðurlöndunum utan Íslands er þessi munur minnstur í Svíþjóð (4,1 ár) og Noregi (4,5 ár).

Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mjög á undanförnum árum. Frá árinu 2000 hafa þeir bætt við sig tveimur árum í meðalævilengd og verða nú karla elstir í heiminum. Fyrir utan Ísland verða evrópskir karlar elstir í Sviss (79,2), Liechtenstein (78,9), Svíþjóð (78,8), Kýpur (78,8) og Noregi (78,2). Styst er meðalævilengd karla í Evrópu í Rússlandi (61,5) og Úkraínu (62,5).

Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna hæstar í heiminum en þær létu undan síga á síðasta áratug. Meðal Evrópuþjóða skipa þær sér nú í sjöunda sæti. Elstar evrópskra kvenna verða konur á Spáni og Frakklandi 84,4 ára að meðaltali. Líkt og meðal karla eru konur í Evrópu ólíklegastar til að ná háum aldri í Moldóvu (72,4) og Rússlandi (73,9).

Ungbarnadauði lágur hér

Ungbarnadauði hefur verið lágur hér á landi miðað við önnur lönd undanfarin áratug. Árið 2008 dóu ellefu börn á fyrsta ári en það þýðir að af hverjum 1.000 lifandi fæddum börnum dóu að meðaltali 2,5 börn. Af Norðurlöndum er þetta hlutfall einungis lægra í Svíþjóð (2,2). Annars staðar á Norðurlöndum er ungbarnadauði lægstur í Finnlandi (2,7) og Noregi (3,2) en hæstur í  Danmörku (4,0). Ungbarnadauði hefur lækkað jafnt og þétt frá miðri síðustu öld úr 27,3 börnum af hverjum 1.000 fæddum árið 1951 niður í tæplega 3 börn af hverjum 1.000 á síðustu árum.

Frétt Hagstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka