Landsbankinn býður óverðtryggð íbúðalán

Höfuðstöðvar Landsbankans.
Höfuðstöðvar Landsbankans.

Landsbankinn býður nú upp á óverðtryggð íbúðalán. Um er að ræða óverðtryggt lán í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum, sem taka m.a. mið af stýrivöxtum og eru nú 1,5% ofan á stýrivexti Seðlabankans. Virkir og skilvísir viðskiptavinir fá 0,5% vaxtaafslátt í formi endurgreiðslu ár hvert.

Bankinn segir, að óverðtryggð íbúðalán henti þeim viðskiptavinum, sem vilji greiða lán sín hraðar niður og forðast uppsöfnun verðbóta á höfuðstól. Eins henti lánin þeim sem vilji breyta skilmálum á íbúðalánum í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur og telja að óverðtryggðir vextir muni lækka í framtíðinni og krónan veikjast. Engin verðtrygging fylgi láninu og dregið sé úr áhrifum af sveiflum í gengi íslensku krónunnar.

Landsbankinn býður upp á greiðsluaðlögun fram í maí 2011 í ljósi þess að vextir eru  nú mjög háir. Á aðlögunartímanum greiði viðskiptavinur ekki afborganir af höfuðstól og ekki hærri vexti en 7% á ársgrundvelli. Mismunurinn á óverðtryggðum íbúðalánavöxtum Landsbankans og greiddum vöxtum komi til hækkunar á höfuðstól lánsins og greiðist niður á afborgunartímabilinu.

Að loknu aðlögunartímabili hefjist afborgunartímabil.  Hægt sé að velja annars vegar um jafnar afborganir af höfuðstól og hins vegar jafngreiðslulán, þ.e. samtala afborgunar og vaxta sé ávallt sama fjáræðin, nema vextir breytist. 

Að sögn bankans geta viðskiptavinir greitt  lánið upp eða skipt yfir í aðrar tegundir íbúðalána hvenær sem er á lánstímanum án uppgreiðslugjalds.  Lánstími getur verið allt að 40 ár, að loknu sérstöku aðlögunartímabili sem lýkur í maí 2011. Alls getur því lánstíminn orðið 42 ár.  Hámarksveðhlutfall getur numið allt að 70% af markaðsverðmæti fasteignar en hærra ef um er að ræða endurfjármögnun á lánum Landsbankans. Lánsfjárhæðin þarf að vera innan við 100% af brunabóta- og lóðamati en að lágmarki 1 milljón króna.

Lánað er til fasteignakaupa, endurfjármögnunar á lánum, nýbygginga og endurbóta á fasteign.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert