Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 324 þúsund krónur á mánuði árið 2008. Regluleg laun fullvinnandi launamanna voru 355 þúsund krónur að meðaltali og regluleg heildarlaun, það er regluleg laun ásamt yfirvinnu, voru 393 þúsund krónur, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni.
Greiddar stundir fullvinnandi launamanna voru að meðaltali 44,7 stundir á viku. Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru 454 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Í heildarlaunum eru regluleg heildarlaun að viðbættum ýmsum greiðslum sem ekki eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili svo sem desemberuppbót og afkomutengdar greiðslur.
Regluleg laun fullvinnandi launamanna eftir starfsstéttum voru á bilinu 226 til 686 þúsund krónur að meðaltali á mánuði árið 2008. Heildarlaun voru á bilinu 325 til 902 þúsund krónur. Laun stjórnenda voru hæst bæði þegar litið er til reglulegra launa og heildarlauna. Laun verkafólks voru lægst þegar litið er til reglulegra launa en laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks voru lægst þegar litið er til heildarlauna.
Þegar laun innan atvinnugreina eru skoðuð má sjá að laun fullvinnandi launamanna voru hæst í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum. Þar voru regluleg laun 472 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun 654 þúsund krónur. Regluleg laun fullvinnandi launamanna voru lægst í iðnaði eða 317 þúsund krónur. Heildarlaun voru hins vegar lægst í atvinnugreininni verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 371 þúsund krónur að meðaltali á mánuði.