„Það er alveg ljóst að þetta mál er komið í allt annan farveg heldur en í tíð fyrri ríkisstjórnar,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra á Alþingi í morgun þegar rætt var um framgang viðræðna við bresku ríksstjórnina um afnám hryðjuverkalaganna.
Hann sagði fyrri ríkisstjórn hafa markað vissa stefnu í þeim málum sem samþykkt var á Alþingi. Hann sagðist sammála Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem sagði að hagsmunum Íslendinga hefði verið vel gætt í þeim efnum. „Ég tel að fyrrverandi utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, undir hennar forystu hafi verið staðið vel að þessu máli, þ.e. á öllum stöðum málsins þar sem utanríkisráðuneytið kom að var harkalegum mótmælum komið á framfæri. Það er til afskrift af fundi hæstvirts fyrrverandi ráðherra með breska utanríkisráðherranum og þar kemur það mjög skýrt fram hve fast er haldið á því máli, svo fast að utanríkisráðherra Breta þykir nóg um,“ sagði Össur.
Hann sagði að sjálfur hefði hann sem starfandi utanríkisráðherra hitt sendiherra Breta nokkrum sinnum og þar hefði málum verið komið fram með skýrum hætti. „En auðvitað vekur eftirtekt að þáverandi forsætisráðherra [Geir. H. Haarde] notaði sér ekki þá stöðu til þess að tala við sinn kollega, þ.e.a.s. það var aldrei fundur með forsætisráðherra Íslands og forsætisráðherra Breta og það var aldrei eftir því leitað. Það er kannski ámælisvert.“
Össur sagðist hafa átti tvo fundi með utanríkisráðherra Breta í síðustu viku þar sem afstöðu Íslendinga hefði verið komið mjög skýrt á framfæri. „Það eru að fara í gang samningaviðræður sem vonandi leiða til farsællar niðurstöðu og vonandi leiða til þess að Íslendingar þurfa ekki að taka á sig miklar byrðar, vonandi engar. Það er alveg ljóst að þetta mál er komið í allt annan farveg heldur en í tíð fyrri ríkisstjórnar.“
Össur sagði að hann hefði áður ekki verið sammála þeirri skoðun Bjarna Benediktssonar að eignir Landsbankans dygðu fyrir forgangskröfum, svo ekkert félli á ríkisstjórnina, en nú hefði honum snúist hugur og teldi eignirnar duga til að ná farsælli niðurstöðu. „Hins vegar er ljós, skýlaus krafa, að Bretar aflétti hryðjuverkalögunum sem fyrst.“