Maðurinn sem flúði undan lögreglu í Reykjavík á tíunda tímanum í kvöld ók á allt að 180 kílómetra hraða á köflum og stafaði mikil ógn af honum. Að sögn lögreglu var töluverð umferð allan tímann á meðan eftirförinni stóð en maðurinn skeytti engu um það heldur ók utan í bíl vegfaranda á ferð og fjórar lögreglubifreiðar áður en yfir lauk.
Eftirförin hófst á Bústaðarvegi við Grímsbæ, þegar lögreglan stöðvaði bifreiðina og hafði afskipti af ökumanni hennar, manni á þrítugsaldri. Hann sýndi hinsvegar mótþróa, setti aðeins rifu á bílrúðuna og neitaði að tala við lögreglu og brunaði svo af stað út Bústaðarveg niður á Reykjanesbraut.
Þar fer maðurinn yfir á rauðu ljósi og hunsar alla umferð, ekur utan í lögreglubifreið, yfir umferðareyju og snýr við. Á leiðinni aftur út Reykjanesbrautina í átt að Miklubraut ekur hann utan í tvær lögreglubifreiðar til viðbótar og bíl vegfaranda á ferð. Ók hann þá sem leið lá upp Ártúnsbrekkuna á 180 kílómetra hraða en hjá hringtorginu við Korpu gerði lögregla fyrstu tilraun til að þvinga hann út af veginum án árangurs.
Ekki annað í stöðunni að mati lögreglu
Að sögn Ríkharðs Steingrímssonar, útivarðsstjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, stafaði mikil hætta af manninum og ekki um annað að ræða en að stöðva för hans enda munaði margsinnis aðeins hársbreidd að stórslys yrði. Þegar tókst að þvinga hann út af veginum við Víkurveg stefndi hann inn í íbúðahverfi og ekki fór á milli mála að hann hugðist ekki stöðva bílinn undir neinum kringumsstæðum. Nokkrir lögreglubílar þurftu að króa hann af utan vegar þar sem hann gerði tilraunir til að komast upp á veginn aftur og halda förinni áfram.
Maðurinn var sem fyrr segir handtekinn í kjölfarið, ómeiddur, ásamt farþega sem einnig var í bílnum. Hann verður færður til yfirheyrslu en grunur er á að hann hafi ekið undir áhrifum fíkniefna. Um 8 lögreglutæki, bæði bílar og mótorhjól, tóku þátt í eftirförinni með beinum hætti en að sögn Ríkharðs voru allir lögreglubílar á höfuðborgarsvæðinu í viðbragðsstöðu vegna málsins.
Fjórir lögreglubílar urðu fyrir skemmdum vegna aksturs mannsins en enginn meiddist.