Héraðsdómur Reykjavíkur veitti í dag Stoðum heimild til að leita nauðasamninga við kröfuhafa sína. Þorsteinn Einarsson hrl. hjá Forum lögmönnum hefur verið skipaður umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum félagsins.
Skuldir Stoða/FL Group eru metnar rúmlega 200 milljörðum króna hærri en eignir félagsins. Því er eigið fé félagsins neikvætt sem þeirri upphæð nemur. Skuldirnar eru áætlaðar um 287 milljarðar króna en eignirnar eru taldar nema 25 til 30 prósentum af þeirri upphæð. Samkvæmt drögum að endurskipulagningu á félaginu er gert ráð fyrir því að allt núverandi hlutafé verði afskrifað og að kröfuhafar félagsins eignist það að fullu.
Þeir kröfuhafar sem áttu tryggð veð í eignum Stoða/FL Group munu einnig breyta kröfum sínum í annars vegar forgangshlutafé í félaginu og hins vegar í veðtryggt skuldabréf. Meðal kröfuhafa sem falla í þennan flokk eru Nýi Kaupþing, Nýi Landsbankinn, skilanefnd Glitnis og erlendir lánveitendur félagsins sem stóðu að sambankaláni. Í forgangshlutafé felst að þeir sem eiga slíkt njóta forgangs til arðgreiðslna fram yfir almenna hluthafa.
Í frumvarpi til nauðasamninga Stoða þess er lagt til að allir kröfuhafar, tryggðir sem ótryggðir, fái allt að eina milljón króna greidda. Þeir ótryggðu kröfuhafar sem eiga hærri kröfu en eina milljón króna fá fimm prósent af eftirstöðvum krafna sinna greidd með almennu hlutafé. Slíkir kröfuhafar munu því tapa 95 prósentum af kröfum sínum að frádreginni einni milljón króna.