Í trúnaðarskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem breska blaðið Financial Times hefur birt, leggur AGS til að aðildarríki Evrópusambandsins í Mið- og Austur-Evrópu, sem hafi orðið hvað verst út úr kreppunni, leggi niður gjaldmiðla sína og taki upp evru án þess að ganga formlega í evrópska myntsamstarfið.
Í skýrslunni segi að með því að taka upp evru sé best hægt að leysa erfiðleikana vegna skulda ríkjanna í erlendum gjaldeyri, eyða óvissu og byggja upp traust. Verði evran ekki tekin upp muni erlendu skuldirnar leiða til mikils niðurskurðar sem geti valdið pólitískum óróa.
Í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun beindi Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, því til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra hvort viðræður í þessa veru hafi átt sér stað milli fjármálaráðherra og AGS síðustu vikur og hvort ríkisstjórnin teldi að einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi sé möguleg fyrir Íslendinga.Steingrímur svaraði því til að hafa bæri í huga að þarna ættu í hlut ríki sem flest eru þegar komin inn í ESB en hafa verið að bíða eftir því að taka upp evru. Sum landanna, t.d. Lettland og Ungverjalandi, hafi þegar tengt sínar myntir við evru sem valdi þeim nú vandræðum. Löndin þurfi að eyða dýrmætum gjaldeyrisvaraforða í að verja tenginguna og það leiði til mikilla erfiðleika í hagstjórn viðkomandi landa. Mat margra sé að kreppan í Lettlandi hafi dýpkað mjög mikið vegna þessara aðstæðna.
„Ísland er í allt annarri stöðu, algerlega ósambærilegri og hafa engar viðræður verið milli mín a.m.k. og að ég best veit ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sambærileg mál hér. Þvert á móti er það þannig að mikilvægur hluti efnahagsstöðugleikaáætlunarinnar gengur út á að koma upp fullnægjandi gjaldeyrisvaraforða og styrkja gengi krónunnar. Á það leggur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áherslu alveg eins og við gerum að sjálfsögðu.“
Sigurður Kári sagði í kjölfarið mikilvægt að koma á stöðugleika hér á landi og létta á þrýstingnum á krónunni en óneitanlega veki athygli að AGS ráðleggi ríkjum Mið- og Austur-Evrópu að taka einhliða upp alþjóðlegan gjaldmiðil og að slíkir möguleikar hafi ekki verið ræddir í viðræðum AGS við íslensku ríkisstjórnina. Í 18. grein samkomulags AGS og yfirvalda sé opnað fyrir slíka möguleika.