Efnahags- og skattanefnd Alþingis leggur til að lögum um endurgreiðslu virðisaukaskatt vegna vinnu á byggingarstað verði breytt og að breytingin verði afturvirk frá 1. mars 2009. Aðeins er mánuður síðan Alþingi samþykkti frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á endurgreiðslu virðisaukaskatts.
Alþingi samþykkti 6. mars síðastliðinn frumvarp fjármálaráðherra um að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna nýbygginga, viðhalds og endurbóta húsnæðis verði tímabundið hækkuð úr 60% í 100%. Samkvæmt lögunum nær endurgreiðslan einnig til frístundabyggðar eða sumarhúsa, hönnunar og eftirlits verkefna og húsnæðis í eigu sveitarfélaga og hálfopinberra félaga. Breytingin tók gildi 1. mars 2009.
Frumvarp fjármálaráðherra tók miklum breytingum við þinglega meðferð og lagði efnahags- og skattanefnd til að endurgreiðslan tæki jafnframt til virðisaukaskatts sem byggjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis greiða af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með umræddum framkvæmdum.
Nefndin ákvað að setja sem skilyrði þessarar endurgreiðslu að um væri að ræða þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga en við 3. umræðu var því breytt og talað um þjónustu hönnuða og eftirlitsaðila sem löggildingu hafa samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.
Nú telja nefndar menn í efnahags- og skattanefns að þetta skilyrði sé ekki í samræmi við þann raunveruleika sem ýmsar starfsstéttir sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum búa við og að það sé til þess fallið að raska samkeppni þeirra á milli. Nefndin leggur því til að orðalagið falli brott úr ákvæðinu.
Lagt er til að breytingin verði afturvirk og gildi frá og með 1. mars 2009. Ekki kemur fram í frumvarpi efnahags- og skattanefndar hvort eða hve margir hafa sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts frá gildistöku laganna 1. mars til dagsins í dag.