Vonandi framkvæmdir á árinu

Grindavík.
Grindavík. mbl.is

Bæjarráð Grindavíkur bindur vonir við að á árinu verði farið í fyrirhugaðar framkvæmdir við byggingu metanólsverksmiðju í Svartsengi. Frá þessu er greint á vefsvæði bæjarins. Verksmiðjan sem er tilraunastöð verður fyrsta verksmiðja sinnar tegundar í heiminum. Umhverfismat fyrir verksmiðjuna er þegar lokið og verksmiðjan er komin á deiliskipulag Grindarvíkurbæjar.

Andri Ottesen og Haukur Óskarsson frá Carbon Recycling International ehf. funduðu með bæjarráði Grindavíkur á dögunum og kynntu stöðu mála.

Eftir því sem haft er eftir Andra verður árleg afkastageta verksmiðjunnar, sem staðsett verður á svæði Hitaveitu Suðurnesja á Svartsengi, 4,2 milljón lítrar af metanóli sem blandað er út í bensín fyrir óbreytta bíla. Áætlað er að verksmiðjan hefji framleiðslu á síðari hluta næsta árs og umbreyti daglega um 18 tonnum af CO2 í um 12.500 lítra af bílaeldsneyti.

Þá segir Andri að samstarfssamningurinn geri einnig ráð fyrir að Hitaveita Suðurnesja og Carbon Recycling International muni í sameiningu reisa aðra verksmiðju á Reykjanesi árið 2011 með tuttugufaldri afkastagetu Svartsengi-verksmiðjunnar eða um 100 milljón lítra af metanóli á ári með orkuþörf upp á 50 MW.

Helstu aðstandendur CRI fyrirtæksins eru Landsbankinn, Olís, Hitaveita Suðurnesja, Mannvit, bandaríski fjárfestingasjóðurinn Focus Group, einnig eru einstaklingar á bak við fyrirtækið eins og Sindri Sindrason sem gegnir stöðu stjórnarformanns og Bjarni Ármansson sem einnig gegnir stjórnarsetu.

Áætlað er að um að 400 framtíðarstörf hafi skapast við framleiðslu Carbon Recycling Internantional á Íslandi fyrir árið 2015.

Vefsvæði Grindavíkurbæjar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert