FL Group veitti Sjálfstæðisflokknum 30 milljóna króna styrk í desember 2006, að því er kom fram í fréttum Stöðvar 2. Þar sagði, að skattrannsóknarstjóri hefði styrkinn m.a. til athugunar en það embætti rannsakar nú bókhald FL Group.
1. janúar 2007 tóku gildi lög um að stjórnmálaflokkum væri óheimilt að taka við hærri fjárstyrkjum en sem næmu 300 þúsund krónum frá einstökum lögaðila.
Haft var eftir Andra Óttarssyni, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, að flokkurinn hafi ekki frekar en aðrir flokkar verið með opið bókhald fyrir þann tíma. Flokkurinn hyggist að svo stöddu ekki tjá sig um einstök fjárframlög til flokksins sem áttu sér stað fyrir setningu laganna.