Hætta þykir vera á skekktri samkeppnisstöðu verði skuldir þeirra fyrirtækja sem ríkisbankarnir hafa tekið yfir afskrifaðar að miklu eða öllu leyti og fyrirtækin síðan seld nýjum eigendum.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir stjórnvöld og samkeppnisyfirvöld verða að tryggja að samkeppnin skekkist ekki við endurskipulagningu atvinnulífsins. „Menn eru farnir að ræða þetta og umræðan mun verða enn meiri eftir því sem fleiri fyrirtæki fara í þrot og geta síðan, eftir að skuldirnar hafa verið halaklipptar, farið að starfa með miklu betri samkeppnisstöðu en áður.“
Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Egilsson hf. sem meðal annars rekur bóka- og ritfangaverslanakeðjuna Office 1, kveðst líta svo á að eftir yfirtöku Kaupþings á Pennanum sé ríkið komið með markaðsráðandi stöðu á markaðnum í þeim geira.
„Við sáum auðvitað fyrir okkur að áður en þessi fyrirtæki yrðu seld færu þau í einhvers konar fitusog þannig að kaupandinn myndi taka yfir minna af skuldum. Það hefði hugsanlega í för með sér erfiðari samkeppni. Við erum enn að berjast og erum ekki komin í hendur banka,“ segir Kjartan.
Hann kveðst hins vegar alls ekki hafa átt von á því að stofnaðar yrðu nýjar kennitölur og ný fyrirtæki um rekstur verslana Pennans og A 4 sem Sparisjóðabanki Íslands tók yfir í fyrra. „Það er allt annað mál. Nú er ríkið sjálft að stofna ný fyrirtæki á samkeppnismarkaði og það er auðvitað mjög óeðlileg aðgerð sem við mótmælum. Okkur finnst hún mjög óréttmæt. Nú erum við ekki í samkeppni við ríkið vegna þess að það hefur eignast fyrirtæki vegna ástandsins, heldur vegna þess að ríkið er búið að stofna ný fyrirtæki.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.