Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands segir að það kosti samfélagið tæpa fjóra komma sjö milljarða að hafa 13.000 stúdenta atvinnulausa Það kosti hinsvegar þrjá komma níu að bjóða upp á lánshæft nám í sumar, eða áttahundruð milljónum minna og það séu fjármunir sem fáist greiddir til baka.
Ríkisstjórnin vinnur að að áætlun um hvernig bregðast skuli við fjöldaatvinnuleysi námsmanna með fjölgun starfa og auknu námsframboði. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir ljóst að ekki verði hægt að leysa vanda allra. Niðurstöðurnar verða kynntar eftir páska en ráða mátti af ummælum ráðherrans að ekki yrði boðið upp á sumarkennslu fyrir alla nemendur.
Fulltrúar stúdentaráðs sátu fyrir ráðherranum eftir ríkisstjórnarfund en þeir sækja það mjög fast að allir nemendur eigi rétt á sumarnámi. Hildur Björnsdóttir formaður Stúdentaráðs var ekki ánægð með svör ráðherra. Hún segir að fulltrúar sveitarfélaganna hafi fengið áfall þegar þeim var kynnt sú staða að allt að þrettán þúsund nemendur gætu óskað eftir fjárhagsaðstoð í sumar en hún nemur um eitthundrað og fimmtán til eitthundrað og tuttugu þúsundum.