Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest, að rétt hafi verið að hafna beiðni um verðsamráð í greiðslukortaviðskiptum.
Samkeppniseftirlitinu barst ósk um undanþágu frá samráðsbanni samkeppnislaga frá Valitor, greiðslumiðlun VISA. Óskaði fyrirtækið eftir því að Samkeppniseftirlitið samþykkti að það setti svonefnt samræmt milligjald á innanlandsmarkaði fyrir greiðslukortaviðskipti.
Milligjaldið er greiðsla frá færsluhirði fyrir hönd söluaðila (t.d. verslanir) til útgefenda kreditkorta (bankar og sparisjóðir). Er greiðslan sögð fyrir þá þjónustu sem útgefendur korta veita söluaðilum vegna viðskipta þar sem kreditkort eru notuð sem greiðslumiðill.
Samkeppniseftirlitið komst í desember að þeirri niðurstöðu að skilyrði samkeppnislaga fyrir undanþágu frá banni við verðsamráði væru ekki uppfyllt og hafnaði því þessari ósk Valitors. Valitor skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að ákvörðun eftirlitsins yrði felld úr gildi þar sem samræmt milligjald fæli ekki í sér ólögmætt samráð. Til vara krafðist fyrirtækið að áfrýjunarnefnd veitti þá undanþágu sem Samkeppniseftirlitið hafði hafnað að veita.
„Í úrskurði nefndarinnar er bent á að útgefendur greiðslukorta sé keppinautar. Í stað þess að hver og einn útgefandi ákveði umrætt milligjald á eigin forsendum hafi þeir falið Valitor að samræma þetta gjald og í þessu felist ólögmætt og samkeppnishamlandi verðsamráð. Áfrýjunarnefnd telur einnig í úrskurði sínum að skilyrði samkeppnislaga fyrir veitingu undanþágu séu ekki uppfyllt og bendir sérstaklega á að með engu móti fáist séð að Valitor hafi sýnt fram á að hagsmunir neytenda skv. samkeppnislögum séu tryggðir," segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.