Deila um fleira en stjórnarskrá

Frá framkvæmdum í Helguvík.
Frá framkvæmdum í Helguvík. mbl.is/RAX

Harðar deilur um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarskránni hafa ekki farið framhjá mörgum. Á meðan hafa ýmis önnur mál, sem samstaða ríkir ekki um, fallið í skuggann en það þýðir ekki að hætt sé að deila um þau. Má þar m.a. nefna þingsályktunartillögu vegna loftslagsmála og fjárfestingarsamning vegna Helguvíkur.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn standa að þingsályktunartillögunni um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum, sem send var til umhverfisnefndar 10. mars sl. Sjálfstæðismenn saka Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingarinnar og formann nefndarinnar, og Atla Gíslason, þingmann Vinstri grænna og varaformann nefndarinnar, um að hafa vísvitandi forðast að halda fund í nefndinni til að tefja fyrir afgreiðslu málsins. Árni M. Mathiesen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem situr einnig í umhverfisnefnd, segir að halda hafi átt fund sl. miðvikudag en seint kvöldið áður hafi honum verið frestað. Svo seint, að sögn Árna, að tölvupósturinn með tíðindunum fór framhjá honum og hann mætti tilbúinn til fundarhalda á miðvikudagsmorgninum. Fundur var þess í stað boðaður í gær, mánudag, en meirihluti nefndarinnar krafðist þess að fundur yrði haldinn strax daginn eftir, eða á fimmtudeginum, svo hægt yrði að afgreiða málið úr nefndinni sem fyrst. Svo varð ekki. „Það er búið að tefja það um tæpa viku að það takist að fjalla um málið og eftir atvikum klára það,“ segir Árni en málið var klárað úr nefnd í gærkvöldi.

Helgi Hjörvar og Atli Gíslason vísa ásökununum á bug. Fundinum hafi verið frestað vegna veikinda formanns og ekkert sé óeðlilegt við þann tíma sem leið frá því óskin um annan fund hafi verið lögð fram og þar til fundurinn var haldinn. Um tvo virka daga hafi verið að ræða en Helgi segist hafa talið mikilvægt að umsagnaraðilum yrði gefinn kostur á því að koma fyrir nefndina og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum en það var gert í gær. Í þingsköpum segir að boða þurfi til fundar krefjist a.m.k. þriðjungur nefndarmanna þess og telur Árni að farið hafi verið þvert á þingsköp með því að boða ekki til fundar á fimmtudag eins og rúmur helmingur nefndarmanna vildi. Atli segir hins vegar ekkert í þingsköpum sem segi að halda þurfi fundinn samdægurs.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert