Rannsóknasetur verslunarinnar á Bifröst segir greinilegt á samdrætti í smásöluverslun að einkaneysla dragist hratt saman. Samdrátturinn sé einkum merkjanlegur í sérvöruverslun en í húsgagnaverslun og raftækjaverslun hafi orðið um helmingssamdráttur á milli ára í marsmánuði.
Velta í dagvöruverslun dróst saman um 16,6% á föstu verðlagi í mars miðað við sama mánuð árið áður en jókst um 8,6% á breytilegu verðlagi á sama tíma. Rannsóknarsetrið segir, að velta í dagvöruverslun á föstu verðlagi hafi aldrei áður dregist svo mikið saman á milli ára frá því að farið var að birta smásöluvísitöluna árið 2001.
Ástæðuna fyrir samdrættinum má að einhverju leyti rekja til þess að í fyrra voru páskar í mars en eru í apríl á þessu ári, en ransóknarsetrið segir að meiru skipti að stöðugur samdráttur hafi verið í dagvöruverslun frá því í ágúst á síðasta ári. Verð á dagvöru hefur hækkaði um 30,1% frá mars í fyrra.
Sala á áfengi dróst saman um 18,9% í mars miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi en jókst um 5,4% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi hækkaði um 30% í mars síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.
Velta fataverslunar var 21,6% minni í mars á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og minnkaði um 0,4% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum hækkaði um 27,1% á einu ári.
Heldur minni samdráttur var í skóverslun. Þannig minnkaði velta skóverslunar um 5,8% í mars á föstu verðlagi en jókst um 14,6% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði um 21,6% á síðastliðnum 12 mánuðum.
Í janúar minnkaði velta í húsgagnaverslun um 54,7% á föstu verðlagi miðað við mars í fyrra og um 41,1% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 29,8% á síðastliðnum 12 mánuðum.
Svipaður samdráttur var í raftækjaverslun og í síðasta mánuði miðað við árið áður. Þannig dróst sala saman um 50,6% á föstu verðlagi og um 27% á breytilegu verðlagi.