Enn á ný er rætt um fundarstjórn þingforseta Alþingis. Sjálfstæðismenn fara fram á að umræðu um stjórnarskipunarlögum verði frestað og önnur brýnni málefni er snúi að hagsmunum heimilanna í landinu og efnahagsmál verði tekin framfyrir.
Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, hefur óskað eftir því við forseta þingsins að hann kanni möguleika þess að fresta þingkosningum um einn mánuð til þess að þingmönnum gefist kostur á að klára að ræða þau mál sem ræða þurfi á þingi. Grétar Mar sagði óásættanlegt að þingmenn hafi ekki kost á að fara um landið og ræða við kjósendur í aðdraganda þingkosninga þar sem þeir væru bundnir yfir umræður á þingi.
Arnbjörg Sveinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók undir með Sigurði Kára Kristjánssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, að einróma tillaga allsherjarnefndar um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði fáist rædd nú þegar á þinginu, þ.e. verði tekið fram fyrir umræðuna um stjórnarskipunarlögin.
Birgir Ármannsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokks, lögðu mikla áherslu á það hversu brýnt málefni hér væri um að ræða sem auka myndi bjartsýni fólksins í landinu.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur ítrekað óskað eftir því að þingfundur verði slitinn og boðað til nýs fundar með nýrri dagskrá þar sem tillaga allsherjarnefndar um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði verði fyrsta mál á dagskrá. Verði þingforseti ekki við óska hans hyggst Sigurður Kári leggja fram formlega dagskrártillögu.
Birgir sagði með ólíkindum að meirihlutinn ætli að keyra stjórnarskipunarlögin í gegn og ýta öllum öðrum málum út af borðinu. Sagði hann sá ofsi og óbilgirni sem einkenni meirihlutann koma sér í opna skjöldu.
Árni M. Mathiesen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, benti á að oft hefði verið minna tilefni en nú til þess að ræða dagskrá þingfundar. Kallaði hann eftir því að formenn þingflokkanna fundi um dagskrá þingsins og komist að ásættanlegri niðurstöðu sem miði að því að þau mál sem brýnust séu fyrir fjölskyldu- og atvinnulífið í landinu fáist rædd.
Lögð hefur verið fram skrifleg tillaga um dagskrárbreytingu þar sem óskað er eftir því að þingfundi verði frestað og boðað til fundar þingflokksformanna þar sem rætt verði um dagskrá þingsins.
Kjartan Ólafsson, þingforseti, gerir það að tillögu sinni að umræða um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, heimild til samnings um Helguvík, tekjuskattur og loftlagsmálin verði meðal þeirra dagskrárliða sem tekin verði fram fyrir umræðu um stjórnarskipunarlögin og greitt um breytingartillöguna atkvæði.