Gamla Kópavogshælið grotnar niður

Gamla Kópavogshælið  liggur undir skemmdum. Húsið á sér stórmerkilega sögu en það var byggt árið 1923 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, Það hefur verið berklahæli og holdsveikraspítali og varð síðar meir hluti af hæli fyrir þroskahefta.

Nikulás Úlfar Másson, formaður Húsafriðunarnefndar ríkisins, segir að húsið sé ekki friðað samkvæmt lögum en hann hafi lengi haft af því mjög miklar áhyggjur. Það sé hinsvegar stefnan að láta reyna á lögbundna skyldu sveitarfélaga til að huga að gömlum húsum með verndargildi.

Bæjaryfirvöld í Kópavogi ætluðu að selja húsið  fyrir nokkrum árum til Ingunnar Wernersdóttur. Kaupverðið var fimmtíu milljónir en hún ætlaði að hafa þar safna og listastarfsemi auk þess að reka þar kaffihús. Hún hætti hinsvegar við kaupin vegna þess að henni fannst lóðin ekki nægilega stór sem fylgir húsinu en hún er þó talsvert víðfeðm.

Gunnar I. Birgisson segir að málið sé biðstöðu en húsin séu ekki að fara neitt, ekki standi til að setja kúluna á þau, né heldur gamla Kópavogsbæinn. Hann er elsta steinsteypta hús í Kópavogi og stendur steinsnar frá hælinu. Gunnar segir að það sé hinsvegar gríðarlega dýrt að gera þessi hús upp og verkið sé því háð því að peningar séu til. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert