Gylfi ræddi um bankahrunið

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, ávarpaði í dag fund Íslensk-ameríska verslunarráðsins sem fram fór í Scandinavia House í New York.

Fram kemur á vef viðskiptaráðuneytisins, að Gylfi hafi í ræðu sinni rakið aðdraganda bankahrunsins á Íslandi, gert grein fyrir þeim aðgerðum sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og farið yfir stöðu og langtímahorfur í íslensku efnahagslífi.

Gylfi undirstrikaði að íslenskt viðskiptalíf væri starfhæft þrátt fyrir það mikla efnahagsáfall sem riðið hefði yfir, og þó að næstu tvö ár yrðu erfið þá væru langtímahorfur á Íslandi tiltölulega jákvæðar. Íslensk fyrirtæki væru því reiðubúin að eiga áframhaldandi gott viðskiptasamstarf við Bandaríkin.

Í gær  átti Gylfi fundi í Washington í bandaríska utanríkisráðuneytinu, viðskiptaráðuneytinu og á skrifstofu viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna. Auk þess hitti hann fulltrúa bandaríska fjármálaráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Tilgangur fundanna með bandarískum stjórnvöldum var að gera grein fyrir framvindu efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og sjóðsins og gera grein fyrir langtímahorfum í íslensku efnahagslífi.

Í ferð sinni til Bandaríkjanna veitti Gylfi bandarískum fjölmiðlum viðtöl um efnahagsástandið og langtímahorfur á Íslandi, m.a. Fox News, Bloomberg og CNBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert