Borgin í átak til atvinnusköpunar

Reykjavíkurborg hefur þegar aflað verðmætra upplýsinga um gömul hús og …
Reykjavíkurborg hefur þegar aflað verðmætra upplýsinga um gömul hús og varðveislugildi þeirra. Sverrir Vilhelmsson

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti einróma á fundi sínum í dag tillögu um sérstakt átak til atvinnusköpunar við uppbyggingu og endurgerð sögufrægra eldri húsa og mannvirkja í Reykjavík. Með verkefninu ættu að geta skapast störf, samhliða því að hægt er að auka á menntun og reynslu fagstétta við endurgerð gamalla íslenskra mannvirkja.

Í tilkynningu frá skrifstofu borgarstjóra segir að átakið verði byggt á reynslu annarra þjóða, sérstaklega svokölluðu Halland verkefni frá Svíþjóð, og skal hafa það að meginmarkmiði að treysta menningarauð borgarinnar.

Haft er eftir Óskari Bergssyni, formanni borgarráðs, að í hópi þeirra tólf þúsund einstaklinga sem eru atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu séu fjöldi iðnaðarmanna, arkitekta, verkfræðinga og annarra sem starfað hafa í byggingariðnaði. Varðveisla gamalla húsa og/eða mannvirkja skapi möguleika á störfum fyrir þessar starfsstéttir, auk þess sem varðveislan hefur menningarsögulegt gildi.

Reykjavíkurborg hefur þegar aflað verðmætra upplýsinga um gömul hús og varðveislugildi þeirra með þeim fjölmörgu húsakönnunum sem framkvæmdar hafa verið  í grónum hverfum á undanförnum árum. Reykjavíkurborg mun leita samstarfs við Vinnumálastofnun og aðila vinnumarkaðarins um verkefnið og skipa stýrihóp í apríl sem mun útfæra aðgerðaráætlun vegna verkefnisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert