Leggja til veiðigjald fyrir hvalveiðar

Áform eru um að innheimta veiðigjald fyrir hvalveiðar.
Áform eru um að innheimta veiðigjald fyrir hvalveiðar. mbl.is/Ómar

Nefnd, sem falið var að semja nýtt lagafrumvarp um hvalveiðar, leggur til að innheimt verði 50 þúsund króna gjald fyrir hvert veiðileyfi og sérstakt veiðigjald fyrir hvert dýr sem veiðist. Fari það gjald eftir stærð dýranna og nemi frá 10 þúsund krónum til 1 milljónar. 

Nefndin hefur lagt fram tillögu að frumvarpi en ekki er gert ráð fyrir því að það verði lagt fram á Alþingi á þessu þingi.  

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu, að veiðigjaldið, sem gerð er tillaga um, sé nokkru hærra er gjald fyrir almennt leyfi til fiskveiða í atvinuskyni og sé það lagt til vegna þess að ráðgert sé að vinna við útgáfu þess og eftirlit með þessum veiðum verði nokkru umfangsmeiri en við almenn leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni.

Veiðigjald fyrir hvern hval sem veiðist skiptist í fjóra flokka samkvæmt tillögunni og er við flokkunina tekið mið af þyngd hvers hvals.  Veiðigjaldið er 10.000 kr. fyrir hvali undir 2 tonnum, 50.000 kr. fyrir hvali frá 2-10 tonnum, 500.000 kr. fyrir hvali frá 10-42,5 tonnum, og 1.000.0000 kr. fyrir hvali yfir 42,5 tonnum.

Nefndin taldi eðlilegt að fyrir veidda hvali væri greitt sérstakt veiðigjald eins og gert er vegna úthlutunar aflaheimilda samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Hins vegar taldi nefndin að ekki lægju fyrir upplýsingar um verðmæti hvalaafurða eða afkomu hvalveiða þannig að unnt væri að setja sambærilegar reglur og kveðið er á um í lögum  um stjórn fiskveiða.

Tillaga um frumvarp um hvalveiðar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert