Ráðleggja ríkjum í vanda evru

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra á Alþingi í gær hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefði ráðlagt Íslendingum að taka upp evruna þar sem upptakan væri, að mati sjóðsins, besta leiðin til að leysa erfiðleika vegna skulda í erlendum gjaldeyri og hvort ríkisstjórnin teldi einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi mögulega.

Tilefnið var að í trúnaðarskýrslu AGS sem breska blaðið Financial Times hefur birt leggur sjóðurinn til að aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) í Mið- og Austur-Evrópu, sem hafi orðið hvað verst úti í kreppunni, taki upp evru. Annars muni erlendu skuldirnar leiða til mikils niðurskurðar, gegn vaxandi pólitískri andstöðu. Fram kemur í FT að AGS hafi hugmyndir um að A-Evrópuríki geti orðið eins konar aukaaðilar myntbandalagsins, án þess að eiga fulltrúa í stjórn Seðlabanka Evrópu (ECB). Slakað yrði á skilyrðum fyrir upptöku evru. Núverandi evruríki séu á móti slíku og ECB einnig.

Steingrímur sagði þarna eiga í hlut ríki sem flest eru þegar komin inn í ESB en bíða eftir því að taka upp evru. Sum landanna, t.d. Lettland og Ungverjaland, hefðu þegar tengt sína mynt við evru en það ylli þeim nú vandræðum. Löndin þyrftu að eyða dýrmætum gjaldeyrisvaraforða í að verja tenginguna sem leiddi til mikilla erfiðleika í hagstjórn. Mat margra væri að kreppan í Lettlandi hefði dýpkað mikið af þeim sökum.

Ísland væri hins vegar í allt annarri stöðu og hefðu engar viðræður verið við AGS um sambærileg mál.

„Þvert á móti er það þannig að mikilvægur hluti efnahagsstöðugleikaáætlunarinnar gengur út á að koma upp fullnægjandi gjaldeyrisvaraforða og styrkja gengi krónunnar. Á það leggur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áherslu alveg eins og við gerum að sjálfsögðu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert