Rúmur helmingur stærstu fyrirtækja á Íslandi ætlar að ráða í ný störf á þessu ári. Þar af reikna 80% þeirra með að ráða í framtíðarstörf og 70% þeirra ætla að ráða fólk til sumarstarfa. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Atvinnuþjónusta Háskólans í Reykjavík hefur látið gera.
12% ætla ekki að ráða nýtt starfsfólk
Í könnuninni kemur enn fremur fram að einungis 12% fyrirtækjanna ætla ekki að ráða nýtt fólk til starfa á næstu 12 mánuðum, en rúmur þriðjungur fyrirtækjanna hefur enn ekki tekið ákvörðun um ráðningarmál næstu mánaða.
Samkvæmt könnuninni reiknar tæpur helmingur fyrirtækjanna með að endurráða í þau störf sem losna á næstu 12 mánuðum og að tæplega 90% þessara fyrirtækja hafa ráðið nýtt fólk til starfa á síðustu 12 mánuðum.
Algengustu fræðisviðin sem fyrirtæki eru að leita að eru viðskiptafræði (56%) og verkfræði (25%).
Úrtak könnunarinnar voru 122 stjórnendur og af þeim svöruðu 76 manns eða 62%. Könnunin var send á stjórnendur 100 stærstu fyrirtækja landsins miðað við lista frá því í febrúar 2008, að því er segir í tilkynningu.