Laun skrifstofustjóra hjá ríkinu sem heyra undir kjararáð hafa enn ekki verið lækkuð af tæknilegum ástæðum. Með lagabreytingu sem gerð var í desember 2007 var ákveðið að skrifstofustjórar myndu heyra undir kjararáð. Af þeim sökum ákvað ráðið að endurskoða laun skrifstofustjóra í heild. Þeir eru eini hópurinn sem heyrir undir kjararáð sem enn hefur ekki tekið á sig launalækkun.
Guðrún Zoëga hjá kjararáði segir skrifstofustjórana gegna mjög mismunandi embættum og því sé verkefnið viðamikið.
„Við ákváðum að endurskoða málin eftir að þeir komu til okkar aftur,“ segir Guðrún og útskýrir að ráðið eigi að skera úr um það sjálft hverjir heyra undir það. „Niðurstaða ráðsins var þá að skrifstofustjórar myndu ekki heyra undir það. Síðan var lögum breytt þannig að þeir voru færðir aftur til kjararáðs og þá var ákveðið að endurskoða kerfið af því að störf þeirra eru svo mismunandi,“ segir hún. Ekki tókst að ljúka verkinu í tíma þannig að laun skrifstofustjóra hækkuðu ekki á sama tíma og annarra á síðasta ári. „Við munum halda áfram þar sem frá var horfið og taka þá mið af hvoru tveggja,“ segir Guðrún. Aðspurð segir hún aðstoðarmenn ráðherra ekki heyra undir kjararáð, en laun þeirra séu tengd launakjörum skrifstofustjóra hjá ríkinu.