Starfsfólk Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum fékk afhent uppsagnarbréf í síðustu viku en uppsögnin er liður í niðurskurði sem stofnunin glímir við um þessar mundir. Gunnar K. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar sagði í samtali við Eyjafréttir.is að nauðsynlegt hafi verið að fara þessa leið.
„Við erum í raun ekki að segja upp fólki en verðum að segja upp
ráðningasamningi til að geta ráðið fólkið aftur á breyttum kjörum. Um leið og
við afhentum uppsagnarbréfið var öllum boðin nýr ráðningasamningur með 5% skertu
starfshlutfalli frá því sem áður var. Það er ekki hægt að fara aðra leið en
þessa út af kjarasamningum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Annars er þetta þriggja mánaða ferli og uppsögnin tekur í raun ekki gildi fyrr
en 1. júlí næstkomandi" að sögn Gunnars.
Gunnar segir að ekki hafi öllum verið sagt upp. „Flestir sem eru í 55% stöðugildum eða hærra lenda í þessum breytingum. Það var þegar búið að hagræða í rekstri eldhússins og því beinast þessar breytingar ekki að starfsfólki þar. En með þessum aðgerðum erum við ekki að fækka störfum hjá stofnuninni heldur að skerða starfshlutfallið til að mæta þeim niðurskurði sem við glímum við um þessar mundir."