Í lok mars var atvinnuleysi í Reykjavík 8,7%. Atvinnuleysið hefur aukist hratt í öllum hverfum borgarinnar en er mest í Efra-Breiðholti og Kjalarnesi þar sem atvinnuleysi er orðið yfir 10%. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingar, á fundi borgarstjórnar í gær.
Samfylkingin og Vinstri græn hafa lagt fram fjölda tillagna í atvinnumálum í borgarstjórn frá bankahruninu, bæði um bráðaaðgerðir og stefnumótun til lengri tíma, segir Dagur. Sumar þeirra eru komnar til framkvæmda, aðrar hafa dregist. „Í umræðunni vakti þó sérstaka athygli að borgarstjóri varði 265 milljóna niðurskurð á framlögum til mannaflsfrekra viðhaldsframkvæmda,“ segir í tilkynningu frá Degi. Sá niðurskurður hafi falist í endurskoðun meirihluta borgarstjórnar á fjárhagsáætlun ársins. Var þetta harðlega gagnrýnt af hálfu minnihlutans enda segir Dagur ljóst að atvinnuleysi sé hvað mest í byggingariðnaði og fjöldi viðhaldsverkefna á vegum borgarinnar bíði þess að ráðist verði í þau.