Framkvæmdir við samgöngumiðstöð geti hafist í ár

Kristján Möller og Hanna Birna Kristjánsdóttir undirrituðu samkomulagið í morgun.
Kristján Möller og Hanna Birna Kristjánsdóttir undirrituðu samkomulagið í morgun.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Kristján Möller samgönguráðherra undirrituðu í morgun minnisblað vegna undirbúnings framkvæmda við fyrsta áfanga samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni. Fram kemur í fréttatilkynningu að vonir standi til þess að framkvæmdir við fyrsta áfangann geti hafist á þessu ári.

Einnig var undirritað samkomulag um að skipa samráðsnefnd á vegum ríkis og Reykjavíkurborgar um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Þetta er búið að vera í talsvert langri vinnu á milli ríkis og borgar í langan tíma en nú er komið að því að setja tímaviðmið og fara að klára hlutina og okkur hjá Reykjavíkurborg finnst ótrúlega mikilvægt að gera það, sérstaklega við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi, að við getum tryggt þessa framkvæmd og hún hefjist, eins og samgönguráðherra hefur sagt, sem allra fyrst og vonandi á þessu ári,“ sagði Hanna Birna þegar minnisblaðið var undirritað.

„Ég tek heilshugar undir það sem borgarstjóri sagði, það er mikilvægt að geta gert þetta núna,“ sagði Kristján. „Þegar ég las gamalt samkomulag frá 2005 þá hugsaði ég með mér „Það var nú bara ágætt að þetta fór ekki í gang á 2007-tímanum“ og þá var kannski bara ágætt að þetta væri ekki komið lengra en núna vegna þess að nú erum við öll, fulltrúar hins opinbera, að leita að verkum til að setja í framkvæmd og skapa vinnu. Ekki veitir af á þessum erfiðleikatímum, sérstaklega hér á höfuðborgasvæðinu þar sem atvinnuleysið er mest. “

Fyrsti áfangi samgöngumiðstöðvar

Í minnisblaðinu kemur fram að framkvæmdir við samgöngumiðstöð eru mikilvægt innlegg opinberra aðila til að skapa atvinnu við núverandi efnahagsaðstæður. Hlutverk samgöngumiðstöðvar er mikilvægt, hvort sem innanlandsflugvöllur verður áfram í Vatnsmýrinni eða ekki, enda er samgöngumiðstöð ætlað að hýsa alla samgöngustarfsemi í Vatnsmýrinni til framtíðar. Gerðar hafa verið breytingar á samgöngumiðstöðinni og hún aðlöguð að breyttum efnahagsaðstæðum og færri farþegum en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun.

Flugstoðir ohf. munu reisa fyrsta áfanga samgöngumiðstöðvar. Staðsetning hennar verður í samræmi við svokallaðan austurvalkost, en unnið hefur verið að skipulagsmálum og fleiri þáttum honum tengdum í nokkurn tíma. Ríkið og Reykjavíkurborg munu hafa með sér makaskipti á lóðum þannig að ríkið afhendir Reykjavíkurborg jafn verðmætt land í eigu ríkisins gegn lóð Reykjavíkurborgar þar sem samgöngumiðstöð rís. Stefnt er að því að niðurstaða varðandi alla þætti liggi fyrir svo fljótt sem verða má þannig að framkvæmdir við fyrsta áfanga samgöngumiðstöðvar geti hafist á þessu ári.

„Ég á enga ósk heitara en að okkur takist að sigla þessu farsællega upp sem við ætlum okkur og við getum þá upplifað það í lok næsta árs að taka í notkum samgöngumiðstöð hér við Reykjavíkurflugvöll,“ sagði Kristján jafnframt á fundinum.

Í samræmi við minnisblað borgarstjóra og samgönguráðherra dags. 11. febrúar 2005 munu samgönguyfirvöld loka NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli en við það skapast svæði til annarra nota, meðal annars fyrir samgöngumiðstöð.  Í samræmi við sama minnisblað er ítrekað að samgönguráðherra og borgarstjóri eru sammála um að með byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni sé ekki verið að taka afstöðu til framtíðar Reykjavíkurflugvallar.

Samkomulag um samráðsnefnd um málefni Reykjavíkurflugvallar

Borgarstjóri og samgönguráðherra skrifuðu einnig undir samkomulag um samráðsnefnd um málefni Reykjavíkurflugvallar. Hlutverk samráðsnefndarinnar er að vera samráðsvettvangur ríkis og borgar um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Nefndinni er sérstaklega ætlað að fylgja eftir þeim aðgerðum sem lagðar voru til af samráðsnefnd um skipulagsmál Reykjavíkurflugvallar undir stjórn Helga Hallgrímssonar.


Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/ÞÖK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert