Fréttaskýring: Áliðnaðurinn á í vök að verjast

Úr álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Það er vel tækjum …
Úr álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Það er vel tækjum búið og ólíklegt að Alcoa skeri niður framleiðslu þar, þrátt fyrir mikla rekstrarerfiðleika. Ljósmynd/Hreinn Magnússon

Rekstr­ar­horf­ur í áliðnaði skipta ís­lensk­an þjóðarbú­skap um­tals­verðu máli vegna raf­orku­sölu­samn­inga sem ís­lensk orku­fyr­ir­tæki hafa gert við álfram­leiðend­ur. Fram­legðin af söl­unni er lít­il í augna­blik­inu, þar sem heims­markaðsverð á áli er lágt. Staðgreiðslu­verðið var um 3.300 doll­ar­ar á tonnið í júlí í fyrra, þegar það var sem hæst, en var við lok­un markaða í gær um 1.400 doll­ara á tonnið, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá London Metal Exchange. Fram­virk verð, þar sem horft til allt að 27 mánaða greiðslu­tíma, er þó nokkuð hærra eða sem nem­ur um 1.700 doll­ur­um á tonnið.

Niður­sveifl­an á álmörkuðum, sem hófst fyr­ir al­vöru eft­ir miðjan ág­úst í fyrra, hef­ur dýpkað langt um­fram spár og er nú svo komið að birgðir af á áli á heims­mörkuðum nema allri fram­leiðslu hér á landi í fjög­ur til fimm ár. Birgðir eru tald­ar vera á bil­inu 3,5 til 5 millj­ón­ir tonna.

Ork­an keypt óháð notk­un

Þrátt fyr­ir mikla niður­sveiflu, sem leitt hef­ur til þess að álfram­leiðend­ur hafa dregið úr fram­leiðslu víða um heim, bend­ir fátt til þess að dregið verði úr fram­leiðslu hér á landi. Alcoa og Rio Tinto, sem reka ál­ver í Straums­vík og Fjarðabyggð, hafa þegar gripið til um­fangs­mik­illa niður­skurðaraðgerða. Hafa dregið úr fram­leiðslu sem nem­ur um 15 til 20 pró­sent­um miðað það sem hún var áður. Vegna orku­sölu­samn­ing­anna sem fyr­ir­tæk­in hafa gert hér á landi er erfiðara um vik að draga úr fram­leiðslu hér en ann­ars staðar. Sam­kvæmt samn­ing­un­um skuld­binda ál­fyr­ir­tæk­in sig til þess að kaupa orku óháð notk­un. Samn­ing­ar sem þess­ir eru ekki al­geng­ir ann­ars staðar í heim­in­um. Í Kína og Banda­ríkj­un­um hafa fram­leiðend­ur til að mynda lokað ál­ver­um, og lagt þau niður, með litl­um fyr­ir­vara þar sem eng­in slík ákvæði eru fyr­ir hendi.

Orku­sal­an skil­ar hins veg­ar litlu til orku­fyr­ir­tækj­anna eins og sak­ir standa, þar sem kaup­verðið sveifl­ast með ál­verðinu. Um 40 millj­arða króna tap Lands­virkj­un­ar á síðasta ári er til vitn­is um það. Þó má rekja tapið að stór­um hluta inn­byggðra af­leiða í orku­sölu­samn­ing­um sem ekki hafa verið leyst­ar inn. Það hef­ur áhrif á tapið til hækk­un­ar í efna­hags­reikn­ingi.

Álver Alcoa í Fjarðabyggð er með þeim nýj­ustu í heim­in­um og er hag­kvæm­ara í rekstri en mörg önn­ur ál­ver, og vel tækj­um búið. Álver Rio Tinto í Straums­vík er komið til ára sinna, en þar er unnið að end­ur­bót­um og stækk­un til að auka hag­kvæmni við fram­leiðslu.

Af þessu sök­um er lík­legra að dregið verði úr fram­leiðslu ann­ars staðar í heim­in­um, áður en það verður gert hér.

Keðju­verk­andi áhrif

Mik­ill sam­drátt­ur í far­ar­tækja­fram­leiðslu, meðal ann­ars í bíla- og flug­vélaiðnaði, hef­ur mik­il áhrif á áliðnaðinn. Þegar bíla­fram­leiðend­ur draga sam­an segl­in fækk­ar kaup­end­um á áli. Þá hef­ur sam­drátt­ur á fast­eigna­mörkuðum, meðal ann­ars í Kína og Mið-Aust­ur­lönd­um, haft um­tals­verð áhrif á áliðnaðinn en mikl­ir upp­gangs­tím­ar í þess­um heims­hlut­um, sem knún­ir voru áfram af ódýru láns­fé og fram­kvæmdagleði, eru nú liðnir. Á stöðum eins og Dubai, þar sem upp­bygg­ing­ar­hraði hef­ur verið æv­in­týri lík­ast­ur, er nú búið draga sam­an segl­in um næst­um 40 pró­sent, sam­kvæmt töl­um sem grein­end­ur Bank of America-Mer­ill Lynch sendu til viðskipta­vina sinna í síðasta mánuði. Á forsíðu Newsweek í októ­ber í fyrra var spurt hvort partýið í Dubai væri búið (Is the party over?). Í hefti blaðsins sem birt­ist í mars á þessu ári, var því svarað ákveðið; já, partýið er búið (The party is over.) Var meðal ann­ars vitnað til aug­ljósra merkja um mik­inn sam­drátt og offjár­fest­ing­ar.

Á meðan drif­kraft­ar efna­hags­lífs heims­ins, fram­leiðslu­grein­arn­ar, draga jafn mikið úr fram­leiðslu og raun ber vitni, þá hef­ur það mik­il áhrif á frum­fram­leiðslu­grein­ar eins og áliðnað. Hann á í vök að verj­ast.

497 millj­óna doll­ara tap fyrstu þrjá mánuði árs­ins

Alcoa til­kynnti í gær um 497 millj­ón doll­ara tap, jafn­v­irði um 63 millj­arða króna, á fyrstu þrem­ur mánuðum þessa árs. Sam­drátt­ur­inn í tekj­um nam 44 pró­sent­um miðað sama tíma í fyrra, sem var nokkru meira en reiknað hafði verið með. Breska rík­is­út­varpið, BBC, greindi frá því þegar til­kynnt var um tapið að dregið verði úr fram­leiðslu um sem nem­ur 13 pró­sent­um, en það þýðir upp­sagn­ir rúm­lega 13 þúsund starfs­manna.

Rekstr­ar­um­hverfi álfram­leiðenda er fjand­sam­legt í augna­blik­inu, einkum af þrem­ur ástæðum. Mikl­um sam­drætti í sölu, for­dæm­ausri verðlækk­un sam­hliða því og erfiðu aðgengi að lausa­fé. Þessi vandi er al­menn­ur í mörg­um at­vinnu­grein­um, en er meira íþyngj­andi fyr­ir frum­fram­leiðslu­grein­ar eins og áliðnað vegna þess hve mik­il skuld­setn­ing fylgdi upp­gangs­tím­um síðustu ára. Ráðist var í fjár­fest­ing­ar á for­send­um mik­il upp­gangs, sem breytt­ist í for­dæma­lausa niður­sveiflu á svip­stundu. Skuld­irn­ar hverfa ekki, en tekj­urn­ar hafa gert það að stór­um hluta.

Höfuðstöðvar General Motors í Detroit í Bandaríkjunum. Niðursveifla í bílaiðnaði …
Höfuðstöðvar Gener­al Motors í Detroit í Banda­ríkj­un­um. Niður­sveifla í bílaiðnaði hef­ur mik­il áhrif á áliðnaðinn. AP
Dubai hefur byggst ótrúlega hratt upp og hvergi hefur verið …
Dubai hef­ur byggst ótrú­lega hratt upp og hvergi hef­ur verið til sparað. Mik­ill sam­drátt­ur er þar, eins og ann­ars staðar. STEVE CRISP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka