Fréttaskýring: Áliðnaðurinn á í vök að verjast

Úr álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Það er vel tækjum …
Úr álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Það er vel tækjum búið og ólíklegt að Alcoa skeri niður framleiðslu þar, þrátt fyrir mikla rekstrarerfiðleika. Ljósmynd/Hreinn Magnússon

Rekstrarhorfur í áliðnaði skipta íslenskan þjóðarbúskap umtalsverðu máli vegna raforkusölusamninga sem íslensk orkufyrirtæki hafa gert við álframleiðendur. Framlegðin af sölunni er lítil í augnablikinu, þar sem heimsmarkaðsverð á áli er lágt. Staðgreiðsluverðið var um 3.300 dollarar á tonnið í júlí í fyrra, þegar það var sem hæst, en var við lokun markaða í gær um 1.400 dollara á tonnið, samkvæmt upplýsingum frá London Metal Exchange. Framvirk verð, þar sem horft til allt að 27 mánaða greiðslutíma, er þó nokkuð hærra eða sem nemur um 1.700 dollurum á tonnið.

Niðursveiflan á álmörkuðum, sem hófst fyrir alvöru eftir miðjan ágúst í fyrra, hefur dýpkað langt umfram spár og er nú svo komið að birgðir af á áli á heimsmörkuðum nema allri framleiðslu hér á landi í fjögur til fimm ár. Birgðir eru taldar vera á bilinu 3,5 til 5 milljónir tonna.

Orkan keypt óháð notkun

Þrátt fyrir mikla niðursveiflu, sem leitt hefur til þess að álframleiðendur hafa dregið úr framleiðslu víða um heim, bendir fátt til þess að dregið verði úr framleiðslu hér á landi. Alcoa og Rio Tinto, sem reka álver í Straumsvík og Fjarðabyggð, hafa þegar gripið til umfangsmikilla niðurskurðaraðgerða. Hafa dregið úr framleiðslu sem nemur um 15 til 20 prósentum miðað það sem hún var áður. Vegna orkusölusamninganna sem fyrirtækin hafa gert hér á landi er erfiðara um vik að draga úr framleiðslu hér en annars staðar. Samkvæmt samningunum skuldbinda álfyrirtækin sig til þess að kaupa orku óháð notkun. Samningar sem þessir eru ekki algengir annars staðar í heiminum. Í Kína og Bandaríkjunum hafa framleiðendur til að mynda lokað álverum, og lagt þau niður, með litlum fyrirvara þar sem engin slík ákvæði eru fyrir hendi.

Orkusalan skilar hins vegar litlu til orkufyrirtækjanna eins og sakir standa, þar sem kaupverðið sveiflast með álverðinu. Um 40 milljarða króna tap Landsvirkjunar á síðasta ári er til vitnis um það. Þó má rekja tapið að stórum hluta innbyggðra afleiða í orkusölusamningum sem ekki hafa verið leystar inn. Það hefur áhrif á tapið til hækkunar í efnahagsreikningi.

Álver Alcoa í Fjarðabyggð er með þeim nýjustu í heiminum og er hagkvæmara í rekstri en mörg önnur álver, og vel tækjum búið. Álver Rio Tinto í Straumsvík er komið til ára sinna, en þar er unnið að endurbótum og stækkun til að auka hagkvæmni við framleiðslu.

Af þessu sökum er líklegra að dregið verði úr framleiðslu annars staðar í heiminum, áður en það verður gert hér.

Keðjuverkandi áhrif

Mikill samdráttur í farartækjaframleiðslu, meðal annars í bíla- og flugvélaiðnaði, hefur mikil áhrif á áliðnaðinn. Þegar bílaframleiðendur draga saman seglin fækkar kaupendum á áli. Þá hefur samdráttur á fasteignamörkuðum, meðal annars í Kína og Mið-Austurlöndum, haft umtalsverð áhrif á áliðnaðinn en miklir uppgangstímar í þessum heimshlutum, sem knúnir voru áfram af ódýru lánsfé og framkvæmdagleði, eru nú liðnir. Á stöðum eins og Dubai, þar sem uppbyggingarhraði hefur verið ævintýri líkastur, er nú búið draga saman seglin um næstum 40 prósent, samkvæmt tölum sem greinendur Bank of America-Merill Lynch sendu til viðskiptavina sinna í síðasta mánuði. Á forsíðu Newsweek í október í fyrra var spurt hvort partýið í Dubai væri búið (Is the party over?). Í hefti blaðsins sem birtist í mars á þessu ári, var því svarað ákveðið; já, partýið er búið (The party is over.) Var meðal annars vitnað til augljósra merkja um mikinn samdrátt og offjárfestingar.

Á meðan drifkraftar efnahagslífs heimsins, framleiðslugreinarnar, draga jafn mikið úr framleiðslu og raun ber vitni, þá hefur það mikil áhrif á frumframleiðslugreinar eins og áliðnað. Hann á í vök að verjast.

497 milljóna dollara tap fyrstu þrjá mánuði ársins

Alcoa tilkynnti í gær um 497 milljón dollara tap, jafnvirði um 63 milljarða króna, á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Samdrátturinn í tekjum nam 44 prósentum miðað sama tíma í fyrra, sem var nokkru meira en reiknað hafði verið með. Breska ríkisútvarpið, BBC, greindi frá því þegar tilkynnt var um tapið að dregið verði úr framleiðslu um sem nemur 13 prósentum, en það þýðir uppsagnir rúmlega 13 þúsund starfsmanna.

Rekstrarumhverfi álframleiðenda er fjandsamlegt í augnablikinu, einkum af þremur ástæðum. Miklum samdrætti í sölu, fordæmausri verðlækkun samhliða því og erfiðu aðgengi að lausafé. Þessi vandi er almennur í mörgum atvinnugreinum, en er meira íþyngjandi fyrir frumframleiðslugreinar eins og áliðnað vegna þess hve mikil skuldsetning fylgdi uppgangstímum síðustu ára. Ráðist var í fjárfestingar á forsendum mikil uppgangs, sem breyttist í fordæmalausa niðursveiflu á svipstundu. Skuldirnar hverfa ekki, en tekjurnar hafa gert það að stórum hluta.

Höfuðstöðvar General Motors í Detroit í Bandaríkjunum. Niðursveifla í bílaiðnaði …
Höfuðstöðvar General Motors í Detroit í Bandaríkjunum. Niðursveifla í bílaiðnaði hefur mikil áhrif á áliðnaðinn. AP
Dubai hefur byggst ótrúlega hratt upp og hvergi hefur verið …
Dubai hefur byggst ótrúlega hratt upp og hvergi hefur verið til sparað. Mikill samdráttur er þar, eins og annars staðar. STEVE CRISP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert