Hafði ekki hugmynd um þetta

Arnbjörg Sveinsdóttir
Arnbjörg Sveinsdóttir

„Ég hafði ekki hugmynd um þetta og hef ekki enn haft tækifæri til þess að hitta framkvæmdastjórann, sem væntanlega ber ábyrgð á þessu,“ segir Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að FL Group hefði styrkt Sjálfstæðisflokkinn um 30 milljónir þann 29. desember 2006, aðeins tveimur dögum áður en lög um hámarksstyrki til stjórnmálaflokka tóku gildi.  Spurð hvort hún myndi sem þingflokksformaður óska eftir fundi með framkvæmdastjóra flokksins svaraði Arnbjörg því neitandi, en tók fram að hún reiknaði með að framkvæmdastjórinn myndi skýra mál sitt.

Í samtali við Morgunblaðið tók Arnbjörg fram að þingmenn hefðu almennt ekki upplýsingar um fjárreiður flokksins. „Við þingmenn vitum ekki hvernig flokkstarfið er rekið fjárhagslega,“ segir Arnbjörg. Spurð hvort það geti ekki verið óheppilegt fyrir trúverðugleika þingmanna komi í ljós að flokkurinn hafi tekið við sérlega háum fjárframlögum svarar Arnbjörg: „Ef þetta er raunin þá hefði ég haldið að þetta væri ekki mjög heppilegt.“ 

Spurð hvort til greina komi að endurgreiða styrkinn segist Arnbjörg ekki hafa velt því fyrir sér. „Við beittum okkur fyrir því að það yrðu settar skýrar reglur um fjármál flokkanna og það er okkar vilji að þetta sé skýrt og að það séu hámarksupphæðir sem hver og einn geti greitt inn í flokkanna.“

En er í því ljósi ekki óheppilegt að aðeins nokkrum dögum fyrir gildistöku nýju laganna séu greidd fjárframlög sem augljóslega myndu ekki standast nýju lögin? „Sennilega, en ég verð hreinlega að fá betri skýringar á þessu áður en ég kommentera á þetta. Ég verð að fá upplýsingar um hvernig þetta er til komið eða hvort þetta er yfir höfuð raunveruleikinn.“ 

 Í tölvupósti sem Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, hefur sent Morgunblaðinu kemur fram að á fundi miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins 3. október 2006 hafi verið greint frá því að hann óskaði eftir að láta af störfum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. „Á það var fallist. Á sama fundi var ráðinn nýr framkvæmdastjóri. Eftir það hafði ég ekki milligöngu um fjáröflun Sjálfstæðisflokksins,“ skrifar Kjartan.

Ekki hefur náðst í Andra Óttarsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert