Íbúðalán í greiðslujöfnun

Þeim sem eru með gengistryggð íbúðalán geta óskað eftir greiðslujöfnun
Þeim sem eru með gengistryggð íbúðalán geta óskað eftir greiðslujöfnun mbl.is/Rax

Samkvæmt samkomulagi sem viðskiptaráðuneytið hefur gert við íbúðalánveitendur skulu lánveitendur gengistryggðra fasteignaveðlána bjóða lántökum upp á greiðslujöfnun. Með greiðslujöfnun er greiðslubyrði af gengistryggðum lánum látin fylgja þróun tekna og atvinnustigs í stað gengis gjaldmiðla.

Viðskiptaráðuneytið, Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), f.h. aðildarfélaga sinna sem eru á íbúðalánamarkaði og skilanefnd SPRON f.h. SPRON hafa í dag gert samkomulag um að tryggja greiðslujöfnun gengistryggðra fasteignaveðlána einstaklinga. Samhliða gera SFF f.h. aðildarfélaga sinna, Landssamtök lífeyrissjóða f.h. aðildarfélaga sinna, skilanefnd SPRON f.h. SPRON og Íbúðalánasjóður með sér samkomulag um samþykki síðari veðhafa, að því er segir í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu.

Markmið samkomulagsins er að tryggja þau áform ríkisstjórnarinnar, að lækka greiðslubyrði á  myntkörfulánum þannig að lántekendur geti staðið í skilum, án þess þó að grípa til afskrifta úr bankakerfinu og/eða verulegs kostnaðar úr ríkissjóði. Þetta eru svipuð úrræði og eru í boði fyrir lántakendur verðtryggðra fasteignalána og því sanngirni gætt á milli lántakenda eins og kostur er, en þó er tekið sérstakt tillit til óvenjulegra aðstæðna gengistryggðra lána.

Lántaki gerir samning við lánveitanda um að greiða af gengistryggðu veðláni miðað við framreiknað greiðslumark, sem miðast við afborgun af höfuðstól og vexti sbr. greiðslubyrði lántaka eins og hún var 2. maí 2008 (hafi lánið verið tekið fyrir þann tíma en hafi lánið verið tekið eftir 2. maí 2008 miðast greiðslumarkið við fyrsta reglulega gjalddaga eftir lántöku).

Mismunur þess sem lántaki greiðir samkvæmt greiðslujöfnun og þess sem hann hefði átt að greiða samkvæmt láninu færist til hækkunar á höfuðstól skuldarinnar og við bætast gjalddagar á upprunalegt lán og lengja þannig lánstímann.

Skilmálabreyting láns vegna greiðslujöfnunar skal vera lántaka að kostnaðarlausu. Samkomulagið hindrar ekki að fjármálafyrirtæki geti veitt viðskiptavinum sínum frekari greiðsluerfiðleikaúrræði og kemur greiðslujöfnun þessi, eftir atvikum, til viðbótar öðrum greiðsluerfiðleikaúrræðum sem lántaki kann að eiga rétt á lögum samkvæmt. Lántaki getur hvenær sem er sagt upp samningi um greiðslujöfnun.

Gildistími samkomulagsins er til ársloka árið 2012.  Samhliða undirritun samkomulagsins verða felld úr gildi tilmæli ríkisstjórnar Íslands frá því í október 2008 um að frystar verði afborganir skuldara á myntkörfulánum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert