Íslendingar draga mest úr útgjöldum

mbl.is/Sverrir

Íslendingar telja frekar en aðrar þjóðir að fjölskyldutekjur muni lækka samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegrar könnunar Alþjóðlegra samtaka óháðra markaðsrannsóknarfyrirtækja(WIN) um fjármálakreppuna sem unnin var á meðal almennings  í  25 löndum. 

Fram kemur ífréttatilkynningu frá Capacent að könnunin sé stærsta alþjóðlega samanburðarkönnunin sem unnin hafi verið um áhrif fjármálakreppunnar á almenning og að hún sýni að Íslendingar séu svartsýnastir þátttökuþjóða varðar fjölskyldutekjur á næstu mánuðum. Þá sýni hún að Íslendingar hafi dregið mikið úr útgjöldum heimilanna samanborið við íbúa annarra þátttökulanda.

Það veki einnig athygli að Ísland sé eitt þriggja landa þar sem aukið traust mælist um að ríkisstjórninni munitakast að ná tökum á efnahagsvandanum.

Af könnuninni má ráða að Argentína, Ástralía, Frakkland, Ísland, Ítalía, Japan, Spánn, Bretland og Bandaríkin eigi í mestum erfiðleikum vegna efnahagskreppunnar.

Samkvæmt könnun sem gerð var í desember 2008 taldi helmingur Íslendinga að fjölskyldutekjur þeirra myndu minnka á næstu 12 mánuðum, 34% að þær myndu standa í stað en einungis 9% að þær myndu aukast.

Íslendingar ásamt Kóreumönnum voru þá svartsýnastir hvað þetta varðar. Í mars árið 2009 voru Íslendingar hins vegar svartsýnastir en Japanar og Rússar fylgdu fast á eftir þeim.  Sögðust 55% Íslendinga telja að fjölskyldutekjur þeirra muni lækka, 35% að þær muni standa í stað en 7% að þær muni aukast.

Þátttakendur voru einnig spurðir að því hvort þeir hefðu frá upphafi efnahagskreppunnar dregið úr kaupum sínum í 10 flokkum af vöru og þjónustu. 49% Íslendinga sögðust hafa dregið saman í kaupum, og í 7 af flokkunum 10 höfðu fleiri Íslendingar dregið saman en íbúar hinna landanna 25.

Íslendingar höfðu flestir dregið úr útgjöldum vegna fría og ferðalaga (72%), kaupa á stórum heimilistækjum (72%), í kaupum á fatnaði og matvælum (71%) en fæstir vegna útgjalda vegna nettenginga á heimilum (8%).

Þátttakendur voru einnig spurðir að því nú hversu vel eða illa þeir treystu ríkisstjórn viðkomandi lands til að ná stjórn á efnahagsvandanum. Notaður var kvarðinn 1-10 þar sem 1 þýddi að þeir treystu henni alls ekki til þess og 10 að þeir treystu henni fullkomlega til þess.

Á heimsvísu var meðaleinkunnin 4,8 af 10 en var í síðustu könnun 5,2 af 10.  Meðaleinkunn Íslendinga í desember 2009 var 4,4 af 10 en hefur hækkað upp í 4,6.

Ísland, Austurríki og Þýskaland voru einu löndin þar sem ekki dró úr trausti en mest traust til ríkisstjórnar um að ná stjórn á kreppunni var mælt 6,7 í Kína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert