Málin ganga of hægt

„Okkur finnst málin ganga of hægt,“ segir Hildur Björnsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og vitnar til þess að enn hefur ekki verið gripið til aðgerða vegna fyrirsjáanlegs vanda stúdenta við að fá atvinnu í sumar.

Í tilkynningu sem stúdentaráð hefur sent frá sér kemur fram að ráðið harmi seinagang og ákvarðanafælni ríkisstjórnarinnar hvað varðar sumarannir við Háskóla Íslands. Við blasi að um 13 þúsund stúdentar verði atvinnulausir í sumar og eigi ekki annarra kosta völ en að mæla göturnar, ef ekki verður gripið til aðgerða.

„Fái þessir 13 þúsund atvinnulausu stúdentar ekki námslán eða atvinnuleysisbætur yfir sumartímann eiga þeir rétt á fjárhagsaðstoð frá sínu sveitarfélagi, en slík aðstoð gæti kostað sveitarfélögin 4,7 milljarða króna,“ segir tilkynningunni. Að veita sama fjölda námslán myndi hins vegar kosta um 3,9 milljarða.

„Það er aðkallandi þörf á því að grípa strax til aðgerða, og bjóða upp á sumarannir við Háskóla Íslands,“ segir Hildur. Aðrir háskólar, meðal annars Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík, bjóða upp á fjölbreytt nám í sumar sem nemendur geta nýtt, ef litla atvinnu verður að fá.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hefur sagt að málin séu til skoðunar hjá ráðuneytinu. Vonir standa til þess að þeirri vinnu verði lokið strax eftir páska. „Stúdentar vilja svör strax því þeir hafa fyllst örvæntingu útaf stöðunni sem komin er upp,“ segir Hildur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert