Þeir sem borða hjá Kaffistofu Samhjálpar eru nú fleiri en nokkru sinni fyrr. Þar fá þeir ókeypis máltíð sem vilja og þverskurðurinn af því fólki sem á í erfiðleikum í dag sækir staðinn. Þetta segir Vilhjálmur Svan sem rekur kaffistofuna. Hann segir það útbreiddan misskilning að þarna komi einungis alkóhólistar og fíkniefnaneytendur.
Guðmundur Erlingsson var að fá sér súpu og sagðist ekki alltaf nenna að elda sjálfur eða borða hamborgararusl. Maturinn væri auk þess alls ekki dýr og reyndar ókeypis. Hann sagðist koma einu sinni til tvisvar í viku í mat. Hann hefði kynnst fólki sem hann gæti heilsað eða átt sem nokkurs konar félaga.
Vestur á Eyjaslóð er líka kaffistofa sem Hjálpræðisherinn rekur. Guðmundur Erlingsson lætur vela f þeim stað og segir að þar ráði Ann Mari ríkjum. Hún sé drjúg og eigi meira að segja mótorhjól
Gunnar Jónas Briem segir matinn mjög góðan, hann geti ekki verið betri. Hann taki þessu fagnandi, hann hitti fólk og grínist og þetta bjóði upp á ýmsa möguleika. Hann kemur á hverjum degi í mat og kaffi, klukkan tíu virka daga og ellefu um helgar.
Vilhjálmur Svan segir að mikið hafi verið fjallað um staðinn og þess vegna leggi fleiri í að koma sem eigi um sárt að binda. En fjölskyldum í hópi matargesta hefur fjölgað og hann segir það sé ekki annað hægt en að tengja það því ástandi sem sé uppi í þjóðfélaginu.