„Ótrúlega há upphæð“

„Mér finnast 30 milljónir frá einum aðila ótrúlega há upphæð og það vekur mann virkilega til umhugsunar. Við erum á allt öðrum nótum hvað varðar upphæðir til okkar flokks,“ segir Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, um meintan 30 milljón króna styrk FL Groups til Sjálfstæðisflokksins í lok árs 2006 aðeins nokkrum dögum áður en ný lög um hámarksstyrki til stjórnmálaflokka tóku gildi.  

Spurð hvort FL Group hafi styrkt Samfylkingunar á árinu 2006 ber Sigrún við trúnaði og bendir á að árinu 2006 hafi ríkt allt annað umhverfi í málefnum styrkja til stjórnmálaflokkanna. „Þá var ekki gefið upp hver styrkti stjórnmálaflokkanna né með hvaða upphæðum, þannig að við erum ekki með það uppgefið,“ segir Sigrún og bætir við: „En ég get sagt að við höfum ekki fengið upphæðir af þessum toga í styrki frá neinum einstökum aðila eða fyrirtæki,“ segir Sigrún og bendir á að alls hafi framlög til Samfylkingarinnar frá einstaklingum og fyrirtækjum á árinu 2006 numið 45 milljónum króna.

Spurð hver hæsta styrkveiting til Samfylkingarinnar árið 2006, þ.e. áður en lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna tóku gildi, hafi verið segir Sigrún hámarksframlög sennilega hafa numið um 10% af heildarfjárhæðinni, þ.e. í kringum 4,5 milljón króna. Aðspurð segist hún ekki hafa trú á því að flokkurinn myndi veita styrk, sambærilegan og þann sem FL Group á að hafa veitt Sjálfstæðisflokknum, viðtöku. „Ég hef enga trú á því að Samfylkingin myndi taka við slíkri upphæð og get fullyrt að meðan ég er framkvæmdastjóri þá kæmi það ekki til greina,“ segir Sigrún. 

Ekki hefur náðst í Skúla Helgason, sem var framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar í lok árs 2006.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert