„Mér sýnist margt benda til þess að þið hafið orðið fyrir barðinu á „efnahagslegum böðlum“,“ sagði John Perkins í samtali við Morgunblaðið. Hann segist marka það af því sem hann hefur séð hér á landi. „Þetta er næstum sígilt dæmi þar sem við sjáum land sem á auðlindir sem stórfyrirtæki ágirnast. Oft er það olía en hér er það ódýrt rafmagn.“
Perkins segir efnahagsböðlana útvega risalán til framkvæmda. Venjulega séu peningarnir í raun ekki til þess að hjálpa landinu heldur til að hjálpa alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Svo kemur að skuldadögum og geti landið ekki staðið í skilum þá er einhvers krafist miskunnarlaust í staðinn. „Hér á Íslandi sýnist mér að endurgjaldið sé að selja álfyrirtækjunum rafmagnið við lægra verði en kostar að framleiða það.“ Perkins þykir grunsamlegt að Landsvirkjun, sem er í opinberri eigu, birtir ekki opinberlega raforkuverð til álvera.
„Það gefur til kynna að samningurinn sé ekki góður fyrir Ísland,“ sagði Perkins. „Ef samningurinn er góður fyrir Ísland myndi maður halda að menn myndu stæra sig af því og fólk fengi að vita af þessum góða samningi. Ég tel þetta merki um að eitthvað sé ekki í lagi. Þegar eitthvað er gert í leyni og upplýsingum haldið frá almenningi, jafnvel þótt hann eigi fyrirtækið, þá er það grunsamlegt.“
Íslendingar eiga að nýta orkulindirnar en nýta orkuna sem mest til hagsbóta fyrir íslensku þjóðina, að mati Perkins. Hann nefnir t.d. uppbyggingu risastórra gróðurhúsa sem þarfnist mikillar orku. „Þið gætuð flutt út grænmeti, blóm og aðrar afurðir. Þegar ég geng hér um götur furða ég mig á því hvers vegna þið eigið svona mikið af stórum eyðslufrekum bílum. Mér finnst að þið ættuð öll að aka um á rafbílum og vera með rafknúið samgöngukerfi. Það mætti breyta bensínstöðvunum í rafhleðslustöðvar fyrir bíla. Þið gætuð tekið forystu á þessu sviði og jafnvel framleitt rafbíla eða rafvélar. Notað álið úr álverunum hér á landi.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.