Fjögur til fimm námskeið verða í boði við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í sumar. Kennt verður frá því seint í maí og prófað verður í ágúst. Kennarar í viðskiptafræði munu kenna launalaust á námskeiðunum. Hugsanlegt er að fleiri deildir fylgi í kjölfarið.
Ingjaldur Hannibalsson deildarforseti segir að hugmyndin hafi komið frá kennurum deildarinnar og ákvörðunin kynnt Kristínu Ingólfsdóttur, rektor skólans, í gærmorgun. Hún hafi fagnað framtakinu. Talið er að á milli 100 og 200 nemendur muni nýta sér námskeiðin. Um 1.400 nemendur eru við deildina, þar af um 750 í grunnnámi. Ingjaldur segir framhaldsnema þó einnig geta nýtt sér námskeiðin.
Spurður hvort hann hafi heyrt af fleiri sumarnámskeiðum segist Ingjaldur hafa heyrt að fleiri kennarar, úr öðrum deildum, hafi viðrað þessa hugmynd.