Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að á fundi formanna þingflokkanna með forseta Alþingis í hádeginu í dag hafi verið fallist á þær óskir sjálfstæðismanna að flýta umræðum um greiðsluaðlögun og vaxtabætur. Umræðurnar eru hafnar og hlé verið gert á umræðu um stjórnlagafrumvarpið.
„Þessi tvö mál voru tekin út fyrir sviga og ákveðið að ganga hratt í að ræða þau. Ég á ekki von á öðru heldur en að umræðan um þau muni ganga mjög greiðlega fyrir sig. Það er sameiginlegur skilningur allra á því,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.
Hann segir að þetta sé í samræmi við kröfur sjálfstæðismanna. Það eigi „frekar að taka svona mál, sem varða hagsmuni heimilanna og fyrirtækjanna, að afgreiða þau hratt og örugglega. Frekar heldur en að ætla að keyra á stjórnlagamálið eitt eins og fram að þessu hefur verið markmið ríkisstjórnarflokkanna,“ segir hann.
„Við erum auðvitað mjög ánægðir með það góða samkomulag sem náðist um þessi mál. En við auðvitað vitum ekki hvernig framhaldið verður.“
Gera má ráð fyrir því að umræðunum um greiðsluaðlögunina og vaxtabætur muni ljúka fljótlega. Umræður um stjórnlagafrumvarpið geta því hafist á nýjan leik síðdegis, en það mun væntanlega skýrast að loknum þingflokksfundum sem hefjast kl. 16.