Fimmtíu og fimm milljónir króna verða endurgreiddar úr sjóðum Sjálfstæðisflokksins í þrotabú Stoða, áður FL-Group, og þrotabú Landsbankans. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, kallaði í gær eftir upplýsingum um alla styrki á árinu 2006 og komst að þeirri niðurstöðu að 30 milljóna króna styrkur frá FL-Group og 25 milljóna króna styrkur frá Landsbankanum stönguðust gróflega á við þau gildi sem hann vill að Sjálfstæðisflokkurinn starfi eftir. „Að mínu mati voru þetta óeðlilega há framlög. Það var rangt að taka við þeim,“ sagði Bjarni í gær.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, forgöngu um að útvega flokknum þessa styrki í árslok 2006. Aðrar heimildir blaðsins herma að þótt Guðlaugur hafi beðið fyrirtæki að styrkja flokkinn hafi honum ekki verið kunnugt um þær upphæðir, sem um var að ræða.
Guðlaugur hafði að sögn heimildarmanna forgöngu um að bjóða Sjálfstæðisflokknum, þ.e. Andra Óttarssyni, nýjum framkvæmdastjóra flokksins, að hann hefði milligöngu um að nokkur fyrirtæki, líklega um tíu talsins, legðu flokknum til styrk. Hvert þeirra myndi leggja til um þrjár milljónir króna þannig að undir forystu FL-Group fengjust um 30 milljónir króna í flokkssjóðinn. Þetta samræmist því sem fram kom í tilkynningu Geirs H. Haarde í gær, um að hann hefði samþykkt að taka við greiðslunni enda væri hún framlag margra aðila sem FL-Group „sæi um að koma til skila“.
Í tilviki Landsbankans fóru, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, fram samtöl milli Guðlaugs Þórs og Sigurjóns Þ. Árnasonar bankastjóra, sem leiddu til þess að bankinn gekk frá styrknum til Sjálfstæðisflokksins.
Fjárhagsstaða flokksins var sögð slæm eftir dýrar sveitarstjórnarkosningar vorið 2006 og aðeins nokkrir mánuðir í þingkosningar.
Í hnotskurn