Haraldur Bessason, fyrrverandi háskólarektor, lést í Toronto í Kanada í gær, tæpra 78 ára. Eiginkona hans er Margrét Björgvinsdóttir. Þau áttu saman eina dóttur, Sigrúnu Stellu, en af fyrra hjónabandi átti Haraldur þrjár dætur og Margrét tvö börn. Öll búa í Kanada.
Haraldur fæddist í Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði 14. apríl 1931. Foreldrar hans voru Bessi Gíslason bóndi þar og hreppstjóri og kona hans Elinborg Björnsdóttir kennari. Eftir cand.mag.-próf í íslenskum fræðum 1956 hélt Haraldur til Winnipeg í Kanada, þar sem hann var prófessor við íslenskudeild Manitoba-háskóla í 31 ár. Hann var í forystu félagslífs og blaðaútgáfu vestra; ritstýrði m.a. Lögbergi-Heimskringlu og Tímariti Hins íslenska þjóðræknisfélags um árabil. Haraldur tók við starfi rektors Háskólans á Akureyri við stofnun skólans 1987 og gegndi því til 1994. Eftir það kenndi hann við skólann en þau Margrét fluttust vestur um haf á ný 2003. Haraldur var kjörinn fyrsti heiðursdoktor Háskólans á Akureyri árið 2000. Hann er einnig heiðursdoktor við Manitoba-háskóla og auk þess heiðursborgari Winnipeg-borgar.