Ósannar staðhæfingar um MP banka

Margeir Pétursson.
Margeir Pétursson. mbl.is/Kristinn

„Fyrir hönd MP Banka mótmæli ég því að reynt sé að draga bankann inn í deilumál sem virðist komið upp vegna lánveitingar stjórnar BYRS vegna eigin stofnfjárbréfa,“ segir í athugasemd frá Margeiri Péturssyni stjórnarformanni MP Banka vegna umræðu um stofnfjárbréf BYRS.

Margeir segir staðhæfingar meirihluta stjórnar BYRS um eignarhald MP Banka á tveimur félögum sem fengu lán til kaupa á bréfum í BYR, ósannar.

Athugasemd Margeirs Péturssonar

Fyrir hönd MP Banka mótmæli ég því að reynt sé að draga bankann inn í deilumál sem virðist komið upp vegna lánveitingar stjórnar BYRS vegna eigin stofnfjárbréfa. Þetta var gert í viðtali við tvo stofnfjáreigendur í BYR í Kastljósi Sjónvarpsins á þriðjudagskvöld og endurtekið á opnum fundi sömu aðila í Reykjavík í gær. 

Tekið skal fram að MP Banki var með fullnægjandi tryggingar vegna lána sem veitt voru á sínum tíma til kaupa á bréfum í BYR og fengust þau lán uppgerð í kjölfar veðkalla. Þar með lauk afskiptum MP Banka af þessu máli. MP Banki getur ekki tekið ábyrgð á því með hvaða hætti veðköllum var mætt, enda hefur bankinn ekkert um það að segja.

Vegna yfirlýsingar sem birt hefur verið frá þremur stjórnarmönnum í BYR vegna þessa máls skal tekið fram að félögin Tæknisetur Arkea og Exeter Holdings eru MP Banka með öllu óviðkomandi. Staðhæfingar meirihluta stjórnar BYRS um eignarhald MP Banka á þessum félögum eru ósannar.  MP Banki hefur ekki veitt þeim neinar ábyrgðir og hefur ekki á nokkurn hátt komið að lánaumsóknum þeirra í BYR.  Aðaleigandi félaganna sagði sig úr stjórn MP Banka sumarið 2008 þegar hann stofnaði eigið verðbréfafyrirtæki, sem tengist MP Banka á engan hátt. 

Fh. MP Banka
Margeir Pétursson, stjórnarformaður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert