Segir John Perkins vera á villigötum

John Perkins.
John Perkins. mbl.is/Árni Sæberg

John Perkins hagfræðingur fer villur vegar þegar hann álítur að raforkufyrirtækin séu í slíkri skuldaklemmu að þau séu knúin til að selja álverum orku á undirverði, að sögn Gústafs A. Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

„Nú fara 80% raforkunnar til stóriðju og hlutfallið hefur vaxið mikið undanfarin ár. Á sama tíma er raforkuverð til heimila mun lægra hér en í nágrannalöndunum. Almennir notendur borga t.d. um fjórðung af því sem Kaupmannahafnarbúar borga,“ sagði Gústaf. Hann benti á að almennt raforkuverð hefði lækkað á undanförnum árum að teknu tilliti til þróunar vísitölu neysluverðs. Þó hafi orkufyrirtækin flest verið að skila ágætri afkomu undanfarin ár, þótt 2008 hafi verið erfitt, eins og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum.

Gústaf telur tortryggni vegna leyndar um raforkuverð til stóriðju vera ástæðulausa. „Slík leynd gildir um samninga til margra annarra fyrirtækja en stóriðjunnar. Framleiðsla og sala á raforku er samkeppnismarkaður og þar liggja nákvæmar upplýsingar um slíka samninga ekki á lausu. Góð arðsemi er fyrir mestu, og hún hefur verið það. “

Gústaf sagði ekkert því til fyrirstöðu að nýta orku til að framleiða blóm og grænmeti. „Í dag njóta garðyrkjufyrirtæki niðurgreiðslu frá ríkissjóði á dreifingu raforku sem stóriðjan ber sjálf og er því ekki hluti af orkuverðinu til hennar.“

gudni@mbl.is

Í hnotskurn
» John Perkins telur að Ísland kunni að hafa orðið fyrir barðinu á „efnahagslegum böðlum“ sem hnepptu landið í skuldafjötra. Endurgjaldið felist m.a. í lágu orkuverði til stóriðju.
» Samorka bendir á að virkjana- og stóriðjuframkvæmdir hafi verið aðeins um 4% af umfangi bankaþenslunnar undanfarin 5-6 ár.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka