Síðasta sprenging og ráðherra ekur í gegn

Unnið við Héðinsfjarðargöng.
Unnið við Héðinsfjarðargöng.

Í dag verður slegið í gegn í Ólafsfjarðarlegg Héðinsfjarðarganganna og síðdegis fær samgönguráðuherra, Kristján Möller, að aka í gegnum göngin ásamt fríðu föruneyti; frá heimabæ ráðherrans, Siglufirði, til Ólafsfjarðar.

„Þetta er ákveðinn áfangi en þó gatið verði komið er gríðarleg vinna eftir. Nú má segja að Háfellsverkhlutinn fari á fullt,“ sagði Jóhann Gunnar Stefánsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Háfells, við Morgunblaðið.

Rétt er að taka fram að göngin eru enn lokað vinnusvæði og almenn umferð um þau stranglega bönnuð. „Í dag er þetta bara lekur hellir og ekki öruggur staður. Lýsing og loftræsting er takmörkuð og hér fær enginn að skjótast í gegn, eins og einhverjir virðast halda,“ sagði Jóhann í gær.

Þungavinnuvélar og önnur stórvirk og sérhæfð tæki eru enn í göngunum, verkinu lýkur ekki fyrr en sumarið 2010 og öll óviðkomandi umferð á vinnusvæðinu er stranglega bönnuð á verktímanum. Verktakinn vill taka það skýrt fram að mjög varasamt getur verið fyrir óviðkomandi að fara inn í göngin þar sem enn á eftir að vinna við vegagerð, fráveituskurði, lokaklæðningar og frágang á vatnsaga. Beinlínis lífshættulegt getur verið að ferðast um göngin án eftirlits, að sögn.

Starfsmenn Háfells hafa til þessa aðallega fengist við verkefni utan ganganna, lagt vegi og brýr en framundan er m.a. að leggja tugi kílómetra af alls kyns lögnum og síðan vegagerð.

Engin vígsluathöfn er áætluð fyrr en við opnun ganganna. Í dag er hins vegar móttaka fyrir boðsgesti; í raun er um að ræða kveðjuhóf starfsmanna tékkneska fyrirtækisins Metrostav sem séð hefur um að sprengja og grafa göngin. Sá hópur er á heimleið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert