„Það logar allt stafnanna á milli í flokknum“ segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem mbl.is ræddi við um styrkveitingar frá Landsbankanum og FL Group til Sjálfstæðisflokksins í árslok 2006.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi haft frumkvæði að framlögum frá FL Group og Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið ákvörðun um að endurgreiða styrkina, samtals 55 milljónir króna, til þrotabúa umræddra fyrirtækja.
Sigurjón Þ. Árnason tók ákvörðunina einn
Nokkrir þingmenn sem blaðamaður ræddi við segja að tímasetning þessa máls sé skelfileg fyrir flokkinn. Bjarni Benediktsson er sagður eiga krefjandi verkefni fyrir höndum, en það sé að endurreisa traust þjóðarinnar á Sjálfstæðisflokknum. Það er mikil reiði meðal flokksmanna vegna þessa máls, en svo virðist sem aðeins örfáir einstaklingar innan flokksins hafi vitað af styrkveitingunum. Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfsfeðga, sagði í gær að bankaráð Landsbankans hefði enga vitneskju haft um styrkveitinguna til Sjálfstæðisflokksins. Svo virðist því sem ákvörðun um styrkina hafi legið hjá bankastjórunum. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að styrkveiting frá Landsbankanum hafi orðið til eftir samtöl Guðlaugs Þórs og Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra. Heimildir mbl.is herma að Halldór J. Kristjánsson hafi ekki komið nálægt umræddri styrkveitingu.
Það að kjörinn fulltrúi hafi hlutast til um styrkveitingar frá fyrirtækjum til flokksins er sagt brjóta gegn óskrifuðum vinnureglum sem Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hafi mótað í sinni tíð sem framkvæmdastjóri flokksins. Kjartan sagðist í gær ekki hafa vitað af umræddum styrkjum, en hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri hinn 1. janúar 2007, nokkrum dögum eftir styrkveitingu frá FL Group. Fram að því hafði hann verið Andra Óttarssyni, nýráðnum framkvæmdastjóra innan handar. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í yfirlýsingu í gær bera alla ábyrgð á því að veita styrkjunum viðtöku.
Guðlaugur Þór Þórðarson auk Kjartans Gunnarssonar sátu í nefnd allra stjórnmálaflokka á sínum tíma sem var falið að fjalla um fjárframlög til stjórnmálaflokkanna. Geir H. Haarde veitti nefndinni forystu.
Ekki hefur náðst í Guðlaug Þór í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ekki hefur heldur náðst í Bjarna Benediktsson, formann flokksins.
Í nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup sem gerð var dagana 1.-7. apríl mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu 25,7% sem er nánast það sama og síðustu könnun Capacent í lok mars, en þá mældist fylgið 25,4%.