Þingflokksfundi Sjálfstæðisflokks sem halda átti í Valhöll núna kl. 15 var á seinustu stundu frestað. Nokkrir þingmenn flokksins voru þegar mættir til fundar, en hurfu aftur á braut.
Samkvæmt heimildum mbl.is er ráðgert að halda fundinn síðar í dag, en ekki liggur ljóst fyrir hvar eða hvenær það verður. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvers vegna fundinum var frestað, en talið er að öðrum fundarhöldum sem fram hafa farið í dag hafi ekki verið lokið áður en að boðuðum þingflokksfundi kom.
Á fundinum stóð til að fjalla um styrki til flokksins á árinu 2006, meðal annars frá FL Group upp á 30 milljónir króna og Landsbankanum upp á 25 milljónir króna, sem ákveðið hefur verið að endurgreiða.
Mikil óánægja er hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins með málið, og sagði einn þeirra í samtali við mbl.is að „nauðsynlegt væri að fá allt upp á borð“ varðandi styrkina til flokksins. Öðruvísi gæti flokkurinn ekki endurheimt traust.
Samkvæmt heimildum mbl.is má búast við að til tíðinda dragi í dag.