Þingflokkur fundar

Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.

Þingflokksfundur verður hjá Sjálfstæðisflokknum klukkan 15:00 í dag. Þar verður fjallað um styrki til flokksins á árinu 2006, meðal annars frá FL Group upp á 30 milljónir króna og Landsbankanum upp á 25 milljónir króna, sem ákveðið hefur verið að endurgreiða.

Mikil óánægja er hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins með málið, og sagði einn þeirra í samtali við mbl.is að „nauðsynlegt væri að fá allt upp á borð“ varðandi styrkina til flokksins. Öðruvísi gæti flokkurinn ekki endurheimt traust.

Sjálfstæðisflokkurinn birti á vefsíðu sinni í dag lista yfir alla þá sem styrktu flokkinn um meira en eina milljón á árinu 2006. Þar eru átta fyrirtæki með styrki upp á samtals 80,9 milljónir. Þar eru hæstir styrkir Landsbankans og FL Group.

Samkvæmt heimildum mbl.is skrifuðu Haukur Leósson, sem seinna varð stjórnarformaður í Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnarmaður í Reykjavík Energy Invest, og Jón Eiríksson, endurskoðendur flokksins, upp á ársreikning flokksins fyrir árið 2006, þegar umræddir styrkir komu til hans rétt áður en ný lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna tóku gildi. Samkvæmt þeim var flokkum óheimilt að taka við styrkjum upp á meira 300 þúsund krónur frá einum lögaðila.

Ársreikningurinn var síðan lagður fyrir miðstjórn. Í honum er ekki útlistað nákvæmlega hvaðan tekjur koma heldur aðeins sundurliðað eftir tekjuflokkum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert